Það er alltaf gaman að sjá góða mynd en það verður að segjast að vissulega sé hægt að njóta góðrar myndar enn betur í réttu umhverfi.
Það má segja að í Bíó-Paradís upplifi maður bíó-stemningu á þægilegri máta en annarsstaðar. Að sjálfsögðu er um persónulegt mat að ræða en sumir vilja fullan sal af fólki, popp-smjatt, hvísl og stöku hóstakast! Einhverja hópatilfinningu sem sýnir þér alla hina en skilur þig samt útundan og segir “margir á þessari mynd” eða “fáir á þessari mynd” allt eftir atvikum. Aðrir vilja ró og næði, ekkert hlé, einhverja sérstaka “bíó-stemningu” og annarskonar tilfinningu fyrir hóp sem sýnir þá sem voru í bíó hvort sem þeir voru margir eða fáir og segir bara: “við vorum á þessari mynd”…
En nóg af svona tali… og að myndinni sem ætlunin var að tala um! CARNAGE heitir mynd sem er sýnd um þessar mundir í Bíó-Paradís.
Handrit myndarinnar er alveg dæmalaust gott en í raun og veru er hér um farsa að ræða – sem sagt eins og leikrit, enda byggt á leikriti eftir franska höfundinn Yasmina Reeza. Það kallast á frönsku “Le Dieu du carnage” og hefur verið sýnt á ekki verri stöðum en West End og Broadway.
Sagan gerist í íbúð í New York þar sem tvenn pör ákveða að hittast og ræða málin eftir að synir þeirra lenda í slagsmálum við hvorn annan í skólanum. Það er gaman að fylgjast með því hvernig samræður þessa fólks byrja að snúast um aðra hluti, stóra sem smáa í lífinu. Upp koma hugmyndir sem setja spurningamerki við kynjahlutverk, vestræna menningu, siðspillingu, mannlegt eðli, efnishyggju og fleira. Það kann að hljóma leiðinlega en svo er alls ekki, þetta er bráðfyndin mynd.
Leikarar myndarinnar eru heldur ekki neitt slor en með hlutverkin fara þau Jodie Foster, John C. Reilly, Christoph Waltz og Kate Winslet sem öll fara á kostum, enda leikstjórnin í góðum höndum. En það er hinn umdeildi óskarsverðlaunahafi Roman Polanski sem leikstýrir og sýnir hér enn og aftur hvers hann er megnugur en myndin hefur hlotið lof gagnrýnenda og rakað til sín verðlaunum og tilnefningum.
Er ekki mál að skella sér í besta bíóið á góða mynd og upplifa almenninlega “bíó-stemningu”?
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.