Í fyrradag fór ég á frumsýninguna á Eldfjalli sem er ný mynd eftir Rúnar Rúnarsson.
Rúnar útskrifaðist úr danska kvikmyndaskólanum árið 2009. Hann hefur fengið mikla viðurkenningu erlendis fyrir stuttmyndir sínar og má þar nefna myndina “Síðasti bærinn í dalnum” sem var m.a. tilnefnd til óskarsverðlauna og “Smáfugla” sem hlaut góðar viðtökur á Cannes. Einnig vann útskriftarmynd hans, “Anna” Nordic Short Film Award.
Eldfjall er fyrsta mynd Rúnars í fullri lengd.
Myndin fjallar um Hannes sem er að hætta störfum og fara á ellilífeyri. Við fáum að kynnast persónu hans, en hann er afar lokaður. Að vissu leyti má segja að hann sé alveg ekta íslenskur karlmaður (svona eins og ég þekki þá nokkra). Hann vill ekki vera nein tepra þessi maður og hann tekst á við hlutina á sinn eigin hátt. Það er í gegnum þagnir og langar senur sem áhorfandi nær sambandi við þennan karakter sem manni byrjar að þykja meira og meira vænt um eftir þvi sem líður á myndina. Einnig finnst mér myndin tala til manns um menningu sem er að hverfa. Hannes er af gamla skólanum og oft sér maður hvernig viðhorf gamalla og nýrra tíma stangast á.
GÓÐUR LEIKUR
Ég vil ekki segja frá gangi sögunnar vegna þess að það gerist í raun og veru ekki mikið og þá væri ég bara að skemma fyrir. Myndin er reyndar ekki svo mikið um framvindu sögunnar, heldur er hún meira í því að sýna manneskjurnar sem hún fjallar um. Ég verð að hrósa leikurunum í hástert. Ég veit ekki hvað það er orðið langt síðan að ég fór á íslenska kvikmynd þar sem ég er sátt við alla leikarana. Margrét Helga Jóhannsdóttir fer með annað aðalhutverkanna sem eiginkonan, en einnig fara þau Elma Lísa Gunnarsdóttir og Þorsteinn Bachmann með hlutverk uppkominna barna þeirra hjóna. Það léku allir vel í myndinni en það er ekki orðum ofaukið að Theodór Júlíusson sýndi stórleik. Þessi leikari hefur verið í fjölmörgum leikritum og bíómyndum áður, en í gær enduruppgvötaði ég hann algerlega.
ALLT VEL HEPPNAÐ
Það sem ég var líka ánægð með, var að fara á íslenska bíómynd sem nær að fjalla um þetta lokaða tilfinningaróf okkar Íslendinga á dempaðan máta. Oft hefur mér fundist vera mikið um drama eða rifrildi í íslenskum bíómyndum sem fjalla um tilfinningar, en þessi var ekki þannig.
Eldfjall er ansi “introvert” mynd sem er líka eitthvað sem ég er ekki vön í íslenskum bíómyndum. Ég get eiginlega ekki sagt nógu marga góða hluti, tökurnar eru fallegar, myndin vekur til umhugsunnar og hreyfir við manni. Og stundum var allt í lagi að hlægja að einhverju sem manni finnst vanalega ekkert fyndið, eða þannig upplifði ég það.
Það er langt síðan að mér fannst eitthvað svona innilega vel heppnað.Við getum verið alveg örugg á því að við séum búin að eignast frábæran leikstjóra sem mun halda áfram að gera góða hluti.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.