Hin klassíska hrollvekjumynd Carrie hefur nú verið endurgerð og kemur í kvikmyndahús í vikunni. Í tilefni af útkomu endurgerðarinnar ákvað ég að rifja upp upprunalegu kvikmyndina sem er frá árinu 1976.
Myndin Carrie er gerð eftir samnefndri skáldsögu spennusagnahöfundarins Stephen King.
King er fyrir löngu orðinn heimsfrægur fyrir spennu- og hrollvekjubækur sínur. Á meðal þekktustu verka King eru The Shining, Misery, Children of the Corn og hin kyngimagnaða Graveyard Shift.
Myndin fjallar um hina sautján ára Carrie sem býr með ofsatrúaðri og strangri móður sinni. Þegar Carrie lendir í þeirri slæmu lífsreynslu að byrja í fyrsta skipti á blæðingum í sturtuklefanum eftir leikfimitíma verður hún fyrir miklu aðkasti frá skólasystrum sínum.
Kennari í skólanum gerir tilraun til að uppræta eineltið gegn Carrie og meinar nokkrum af skólasystrum hennar að fara á lokaball skólans.
Þessar stúlkur ákveða að ná sér niður á Carrie og plana hrottalega hefnd sem gleymist aldrei.
Mæli með að horfa á upprunalegu Carrie
Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir endurgerðinni á Carrie. Nú hef ég séð brot úr myndinni og finnst mér hún líta virkilega vel út.
Leikararnir í endurgerðinni eru allir vel þekktir: Julianne Moore leikur móðurina ofsatrúuðu og Chloë Grace Moretz fer með hlutverk Carrie.
Ég mæli eindregið með því að kíkja á gömlu myndina og fara svo á þá nýju í bíó. Það er alltaf gaman að bera saman svona myndir, sérstaklega ef báðar útgáfur eru vandaðar.
Hér má sjá sýnshorn úr bæði upprunalegu Carrie frá árinu 1976 og endurgerðinni.
Endurgerðin á kvikmyndinni Carrie kemur í kvikmyndahús 8. nóvember.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=VSF6WVx_Tdo[/youtube] [youtube]http://www.youtube.com/watch?v=H369sxjyhx8[/youtube]Anna Brá Bjarnadóttir er fædd á því herrans ári 1986, sama ár og Gleðibankinn hóf raust sína í júró, sem er mögnuð tilviljun þar sem stúlkan er sjálf vel stæður Gleðibanki! Anna starfar sem skemmtanastjóri og dj á Loftinu og Lebowski Bar en er á sama tíma algjör græju gúrú og fíkill. Anna er útskrifuð af tæknibraut Kvikmyndaskóla Íslands og hefur m.a. starfað við fjölda auglýsinga og sjónvarpsþátta. Hún býr við Norðurmýrina með hundinum Tinna og kærastanum og kokkinum Jónasi.