Laugarásbíó sýnir teiknimyndina Brave – ævintýrasögu um prinsessuna Merida sem vill ráða sínum örlögum sjálf í stað þess að feta í fótspor ættingja sinna og bregður hún á það ráð að gera uppreisn gegn fjölskyldunni.
Merida er uppátækjasamur óþekktarangi sem skýtur með boga af einskærri nákvæmni, finnst gaman að fara í útreiðatúra og er sérlega snjöll stúlka.
Það sem hún gerir sér ekki grein fyrir, þegar hún biður galdranorn eina að aðstoða sig í að breyta örlögum sínum, er að göldrum fylgir alltaf kvöð og í stað þess galdurinn rætist eftir Merida höfði gerast óvæntir atburðir sem leggja líf móður Meridu í hættu og öllu konungsveldinu.
Sagan fjallar um hvernig við getum breytt forlögum okkar sjálf, en verðum í leiðinni að vera trú sjálfum okkur og fara rétt að hlutunum. Það eru engar skyndilausnir í þessu lífi, heldur verður maður að vinna fyrir því sem maður vill með röksemd og ró.
Ég mæli með þessari mynd fyrir fjölskylduna en það er alveg spurning hvort hún ætti að vera leyfð öllum aldurshópum þar sem hún er frekar óhugnanleg á köflum. Ef til vill ættum við að fara sömu leið og frakkarnir og hafa hana fyrir sex ára og eldri.
Drengurinn minn sem er rúmlega fjögurra ára sagði eftir myndina:
“Þetta var rosalega skemmtileg mynd, ég var hræddur og mikið hræddur en hún var rosalega skemmtileg.”
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=TEHWDA_6e3M[/youtube]
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.