Það eru 13 ár síðan upprunalega American Pie myndin kom út. Þá var ég 13 ára og mér fannst American Pie ein besta grínmynd sem ég hafði séð.
American Reunion, sem nú er sýnd í Laugarásbíó, nær vel að halda í við forvera sinn og þó að það sé í rauninni ekki fundið upp á neinu nýju í myndinni er hún þrælskemmtileg. Myndin virkar að stóru leyti eins og eins konar nostalgíukast og er til dæmis að einhverju leyti notast við sömu tónlist og í gömlu myndunum og það er reglulega minnt á gamla brandara.
Myndin er fyndin og skemmtileg og manni fannst að sumu leyti eins og maður væri að hitta aftur gamla vini. Það var alveg sérstaklega gaman að sjá að allir leikararnir sneru aftur og þá meira að segja líka flestallir aukaleikararnir. Sherminator, Nadia og MILF-strákarnir birtast til dæmis öll í myndinni ásamt því að við fáum að kynnast nokkrum nýjum karakterum.
Vertu tilbúin fyrir hlátur og vandræðalegheit, því auðvitað mun eitthvað vandræðalegt gerast í þessari mynd eins og í öllum hinum!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=V7qq0iJGSu0[/youtube]Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.