Ég skellti mér í bíó á myndina 50/50, var í stuði fyrir dramamynd með gamanívafi og rambaði á IMDB sem gaf myndinni 8.0 í einkunn þannig að ég sló til.
Myndin fjallar um 27 ára gamlan dreng sem greinist með krabbamein og eru 50% líkur á því að hann nái að berja það frá sér eða hverfa frá þessari jörð. Við fylgjumst með á gamansaman hátt hvernig hann og fólkið í kringum hann bregst við tíðindunum. Sumir standa við hlið hans eins og klettur meðan aðrir sýna ekki sínar bestu hliðar og skiptist á gleði og sorg.
Að sjálfsögðu er rómantík í myndinni til að krydda hana smá, en þrátt fyrir að myndin hafi fengið gagnrýni á sig að vera frekar beinskeitt eða jafnvel ganga of langt að gera grín að sumum hlutum sem við koma krabbameini þá fannst mér það nú ekki. Margt af því sem kemur fram í myndinni minnti mig á það sem ég þurfti að ganga í gegnum á sínum tíma í minni baráttu við krabbameinið, þannig að það var bara hressandi að sjá þetta frá smá grínsjónarhorni.
Myndin fær upp til hópa mjög góða dóma erlendis og mér fannst gaman að sjá mynd sem tengist raunveruleikanum í staðinn fyrir allt þetta “aksjón” sem maður er endalaust að horfa á.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=gsEOl7nlXcA[/youtube]
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.