“Mér þykir ósköp vænt um að fá þessa tilnefningu því ég lagði hjarta mitt í þessa bók. Síðustu fjögur árin hef ég verið að safna efni í bókina og því er ánægjulegt að hún hafi fallið í kramið. Nú krossa ég bara fingur og vona það besta,” segir Marta María Jónasdóttir höfundur bókarinnar MMM Matreiðslubók Mörtu Maríu.
Bókin hennar Mörtu fékk í dag tilnefningu fyrir hönd Íslands til GOURMAND WORLD COOKBOOK AWARDS 2014
Þetta opnar möguleika Mörtu Maríu á að vinna “GOURMAND BEST IN THE WORLD” titilinn sem besta skandinavíska matreiðslubókin en sigurvegarinn verður tilkynntur þann 9. júní í Yantai, í Kína.
Í bókinni MMM má finna á annað hundrað heilsusamlegar sælkerauppskriftir að morgunverðarréttum, drykkjum, nesti í skólann og vinnuna, kvöldmat handa fjölskyldunni og veitingum í vinaboðin. Það eru líka nokkrar ekki eins hollar en alveg jafn æðislegar.
Marta gaf okkur á Pjattinu góðfúslegt leyfi til að birta eina uppskrift úr þessari flottu bók en rétturinn er víst himneskur að sögn þeirra sem hafa prófað.
Kvikindi í ofni – ekta laugardagsmatur
„Ég held mikið upp á þá aðferð að elda mat í potti eða setja í eldfast mót og pakka inn í álpappír. Mér finnst frábært að geta sett hráefnið í pottinn, kryddað það og sett inn í ofn og þurfa ekki að spá í það meira. Á meðan kjúklingurinn eldar sig sjálfur getur þú gert eitthvað uppbyggilegt með fjölskyldunni, farið út að skokka eða verið í baði í klukkutíma.”
- 1 kjúklingur
- ½ msk paprikukrydd
- 1 msk óreganó
- 1 msk steinselja
- 4 tómatar
- 2 laukar
- 5 hvítlauksrif
- 2 sellerístönglar
- 2 bollar vatn
- salt og pipar eftir smekk
Kryddaðu kjúklinginn með paprikukryddi, óreganói og steinselju. Leggðu hann í járnpott eða settu í eldfast mót. Settu lok á pottinn eða breiddu álpappír vel yfir formið. Skerðu grænmetið í stóra bita, settu það út á og helltu vatninu yfir. Settu kjúklinginn inn í ofn, stilltu á 200°C og láttu hann malla í ofninum í 2½ klukkustund.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.