Saga Pjattrófanna…
Þegar Pjattrófurnar voru stofnaðar í febrúar árið 2009 var enginn sambærilegur íslenskur stelpuvefur í loftinu og okkur fannst alveg þörf á slíku. Femin.is hafði reyndar verið í loftinu í lengri tíma en okkur fannst vanta eitthvað nýtt og skemmtilegt – já, okkur fannst vanta Pjattrófurnar!
Við vorum þrjár sem byrjuðum að skrifa um snyrtivörur og gefa heilræði sem tengast tísku og snyrtivörum ásamt því að hafa í hávegum margt sem flokkast undir áhugasvið okkar kynsystra (og einhverra stráka). Greinilega voru fleiri á því máli að svona efni mætti gjarna vera á netinu því samstundis fengum við góðar viðtökur og rífandi lestur. Í dag eru pjattrófupennarnir á bilinu 7-10 og lesendahópurinn skiptir tugum þúsunda. Sambærilegar síður hafa síðar komið í kjölfar okkar -enda margir sem hafa gaman af fegurð og fíneríi.
Fljótlega eftir að síðan fór í loftið var okkur boðið að koma með vefinn á Eyjuna og auðvitað slógum við til enda bara gaman að vera með öðrum í liði og sameinast um „nettraffík“. Þegar Eyjan var seld snemma árs 2011 breyttum við til og þegar þetta er skrifað er vefurinn okkar í samfloti við DV án þess þó að DV eigi neitt í okkur.
Þannig er gaman að segja frá því að Pjattrófurnar erum algjörlega sjálfstæðar. Það eru hvorki kúlulán né karlar á bak við okkur. Við erum að gera þennan vef sjálfar frá A-Ö og aftur til baka – allt frá skrifum og prófarkarlestri yfir í grafíska hönnun og alla almenna umsjón. „It’s a girl thing“.
Og það er ekki bara vefsíðan okkar sem dafnar því við erum með tæplega 19.000 aðdáendur á Facebook þegar þetta er skrifað og aðdáendurnir eru um 98% stelpur sem gerir okkur að stærsta stelpupartýi landsins!! 🙂
Takk kæru vinkonur fyrir að sýna okkur stuðning, lesa síðuna og vera með í partýinu!
ATH: Til að hafa samband við okkur má senda tölvupóst á pjattrofurnar@pjatt.is eða hringja í síma 5782502.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.