Ég sá myndina Pretty Woman alls fjórum sinnum í bíó árið 1994 og 18 sinnum heima í stofu á dvd!
Richard Gere var glæsilegi draumaprinsinn og Julia Roberts sú sem krækti í hann, bæði jafn sjarmerandi.
Vinur minn spilaði fyrir mig lag úr myndinni og spurði hvort ég kannaðist við það. Þegar ég játaði kinkaði hann kolli nokkuð ánægður og sagði svo nokkuð skondið:
– “Treystu aldrei kvenmanni sem hefur ekki séð Pretty Woman og Dirty Dancing.”
– “Nú,“ sagði ég þá og beið eftir svari.
– “Þú veist ekkert nema hún sé þá lesbía,” útskýrði hann eins og um klára stærðfræðiformúlu væri að ræða.
Horfir ekki á kvennamyndir – ergo er ekki með kvenlegar þrár og kenndir. Það hrökk ofan í mig vatnssopinn við að heyra þessa kenningu.
Það fylgdi sögunni að einu sinni sem oftar hafði hann talað við stúlku og ekkert athugavert við það. Nema, sú hafði hvoruga myndanna séð. Hann furðaði sig eðlilega á þessu andkvenlega eðli – ALLAR konur hafa nefnilega horft á þessar myndir, ef ekki einu sinni þá tvisvar. Meira að segja amma horfði á Pretty Woman um páskana sér til ánægju.
Vinur minn hefur líka þrælað sér í gegnum þetta amk. einu sinni. Stúlkan sem hann var að ræða við lét þó ekkert slá sig út af laginu og spurði tilbaka, hvers vegna í himninum hann, karlmaðurinn hefði horft á týpískar kvennamyndir…
“Jú, til að skilja ykkur betur!”
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.