Á Laugardaginn frumsýndi Þjóðleikhúsið barnaleikritið Kuggur sem byggð er á vinsælu bókunum um Kugg og félaga hans eftir Sigrúnu Eldjárn en verkið er sýnt í Kúlunni.
Ég fór á sýninguna með dætrum mínum en önnur er 8 ára og hin tveggja og hálfs árs og við skemmtum okkur allar frábærlega.
Kuggur er skemmtilegur drengur sem tekur upp á hinum ýmsu hlutum með sínum óvenjulegu vinum. Vinirnir eru Mosi, sem er lítill og grænn, Málfríður, og svo móðir hennar en þess má geta að Málfríður er eldri kona og móðir hennar enn eldri og því mjög skemmtilegt að að sjá hversu skemmtilegar og uppátækjasamar þær eru.
Í verkinu segir frá því þegar Kuggur og Mosi eru á leiðinni í Þjóðleikhúsið að horfa á leiksýningu. Málfríður og móðir hennar eru einnig mættar með skrítin tæki og tól. Málfríður fer að sýna hinum leikhúsvél sem hún hefur búið til sjálf og er sú vél heldur betur spennandi en út úr henni koma tölvuskrímsli, geimvera og svo er hægt að breyta henni í eldflaug svo nokkuð sé nefnt.
Áður en Kuggur veit af er hann sjálfur orðinn leikari í leiksýningu en hann hélt að það væri öðruvísi að fara í leikhús!Virkilega skemmtileg sýning með dansi og söng, sýningartíminn er um klukkustund svo að leiksýningin hentar yngri börnum líka.
Hinn ellefu ára gamli Gunnar Hrafn Kristjánsson leikur Kugg en Gunnar Hrafn hefur áður leikið í tveimur leikritum á Stóra sviði Þjóðleikhússins, í sjónvarpsþáttum og nú í desember sigraði hann söngkeppnina Jólastjörnuna á Stöð2.
Leikkonurnar Edda Arnljótsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir leika Málfríði og mömmu hennar.
Hér má lesa meira um miðaverð, laus sæti, sýningartíma ofl.
Una Dögg Gudmundsdòttir er 28 àra Seltirningur sem býr nú í Vesturbæ ásamt eiginmanni og tveimur dætrum, 7 og 2 ára.
Una Dögg lauk BA prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands, en verandi pjattrófa inn að beini hefur hún einnig lært nagla og förðunarfræði. Una elskar að baka og elda en henni finnst best að hafa uppskriftirnar einfaldar, fljótlegar og auðvitað dásamlega góðar.