Fyrirsagnirnar segja allt sem segja þarf og hafa t.d. hljómað svona „Krumpuð hné Jennifer Lopez“, „Kate Moss með appelsínuhúð“ „Sjúskuð og ómáluð Cameron Diaz“ …
…Stundum geta „ekki fréttirnar“ á vísi gert mig brjálaða.
Ég furða mig á hvort það sé kona sem situr og skrifar þessar „ekki fréttir“ á vísi og hvernig hún þá líti út. Ætli hún sé fullkomin? Eða bara svona ánægð að sjá að stjörnurnar eru „venjulegt“ fólk eins og við sem fær appelsínuhúð, hrukkur og fer út úr húsi ómálað?
Hvað sem liggur að baki þessarri „fréttamennsku“ þá finnst mér afar niðurdrepandi að sjá þetta og finnst þetta stuðla að því að við konur gerum óeðlilegar kröfur á okkur. Við hljótum að verða ofurmeðvitaðar um eigin „misfellur“ appelsínuhúð, hrukkur eða hvaðeina sem allar konur fá við að vera minntar á það eins og það sé e-ð tiltökumál.
Ég er kannski pjattrófa og geri margt til að líta vel út. Kem með ýmis ráð en ef fólk er hrætt við að skreppa út í búð ómálað í innigallanum eða við að fara í sund vegna appelsínuhúðar þá finnst mér of langt gengið í útlitskröfunum og mér finnst umfram allt að við eigum ekki að vera setja út á hvort annað með svona “fréttamennsku”, ég þakka bara guði fyrir að vera ekki fræg og þurfa hafa áhyggjur af útlitinu 24/7.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.