Þegar ég flutti til Bandaríkjanna var ég sko staðráðin í því að ég ætlaði ekki að enda sem einhver skyndibitabolla. En það vill oft koma fyrir þegar fólk flytur til Bandaríkjanna að hormónasprautaða og djúpsteikta draslið hérna yfirtaki matseðilinn og ég var engin undantekning.
Það tók mig ekki nema nokkra mánuði að þruma mér upp í næstum 80 kíló (er 167 cm og vön að vera 60 kg- plús mínus nokkur). Í byrjun ágúst 2008 var ég komin með algjörlega ógeð af því að vera með ógeð á sjálfri mér og sá að annaðhvort þyrfti ég að fara í megrun eða panta póstnúmer á rassinn á mér…
Ég er mjög stolt af árangri mínum á þessum 7 og hálfa mánuði og þar sem svo margir hafa spurt mig hvað “leyndarmálið” er, þá ætla ég að deila því með ykkur hérna:
Ég byrjaði á því að leita uppi uppskriftir af nokkrum grænmetisréttum. Grænmetisréttabók Sollu er mjög góð uppspretta og í gegnum vinkonu mína fékk ég nokkrar uppskriftir þaðan.
Ég tók heilann dag í að elda nokkra rétti, þrumaði þeim svo í skammtastærðir í poka og inn í frysti. Nældi mér svo í einn poka þegar þegar kom að matmálstíma, inn í örbylgjuofninn og naut þess svo að borða holla og góða máltíð.
Næsta mál á dagskrá var líkamsræktin. Ég er ekki ein af þeim sem elska ræktina… Vildi að ég væri það, en því miður er ég það ekki. Ég hafði reyndar aðgang að orbitrek tæki sem ég byrjaði að smella mér á í 50 mín sirka 4 sinnum í viku og svo reddaði ég mér jóga DVD og fór að æfa jóga inni á miðju stofugólfi á hverjum degi.
Ég þurfti líka eitthvað búst, þannig að daginn sem ég byrjaði megrunina auglýsti ég á blogginu mínu að þann 31 október myndi ég smella inn fyrir og eftirmyndum. Ég byrjaði að sjá árangur mjög fljótlega og með hverju kílóinu sem fauk varð ég staðráðnari í því að ég myndi ná takmarkinu: 20 kíló! 31 október stóð ég við loforðið, búin að missa 12 kíló, og smellti inn fyrir og eftirmyndum, en hélt samt ótrauð áfram þar sem ég var bara rúmlega hálfnuð…
Í dag er ég rúmlega 20 kílóum léttari, líður vel á sál og líkama og hef sannað það fyrir mér og öðrum að þó svo að maður búi í landi djúpsteikingarinnar (já eða hvar sem er), þá þarftu ekki að líta út eins og búrhvalur. Þetta eru engin stjörnuvísindi… Passa hvað þú setur ofan í þig, hætta að borða þegar líkaminn gefur þér merki um að þú sért búin/n að fá nóg og brenna aukakaloríunum.
Nú hef ég deilt með ykkur litla “leyndarmálinu” mínu 🙂 Ég vona að mín árangurssaga geti orðið öðrum hvatning.
Hérna sjáið þið svo fyrir og eftirmyndir:
FYRIR
…og eftir!
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.