Af því það eru páskar, og af því orðið “feðraveldi” er á allra vörum þessa dagana, langar mig að birta hér grein sem ég skrifaði fyrir margt löngu en hún birtist á prenti og var hluti af greinaröð sem fjallaði um kynlíf og trúarbrögð. Mjög áhugaverð blanda!
Í stuttu máli má segja að kristni og kynlíf hafi aldrei átt neitt sérstaklega góða samleið því kirkjunnar feður (patriarchy=feðraveldið) áttu engan óvin öflugri en að verða kynferðislega æstir og í því samhengi mátti konan þannig teljast gríðarlegur óvinur, -því hvað er hættulegra metnaðarfullum munki sem þráir ekkert heitar en hann guð sinn, en kynæsandi kvenmaður? Ertu spennt? Lestu þá meira…
Kynlíf og kristni – Stríðið á milli huga og holds
Áhrif kristinnar kirkju á kynlíf vesturlandabúa verða seint ofmetinn.
Þeir hugrökku aðilar sem hafa ögrað og reynt að stíga fram með nýtt siðferðismat í okkar vestræna heimi, eins og m.a Marquis de Sade og Sigmund Freud, (og nú síðast #freethenipple stelpurnar) hafa alltaf þurft að beina spjótum sínum gegn kennisetningum sem eiga rætur sínar að rekja til upphafsmanna kristinnar kirkju, feðraveldisins svokallaða.
Flest af því sem vesturlandabúar álíta í dag synd og skömm, hefur mjög lítið að gera með hina heilögu ritningu því þar er vitanlega svo gott sem ekkert skrifað um kynlíf.
Staðreyndin er sú að listinn langi yfir kynferðislegar syndir okkar manna og kvenna var að mestu saminn af fámennum hópi karlmanna sem voru uppi á lokaskeiði Rómverska keisaraveldissins (sirka 4-5 öld e.kr). Hinir svokölluðu kirkjunnar feður. Þessar reglur sömdu karlangarnir í þeim göfuga tilgangi að reyna að draga úr eigin losta, enda fátt sem truflar bæn og hugleiðslu meira en hugsanir um kynlíf.
Röksemdafærslur þeirra fengu svo öflugan meðbyr frá voldugri kirkjunni sem lét hvergi undan í að dreifa þessum nýja siðferðisboðskap til meðlima sinna og víðar. Í dag eru margir sem myndu álykta að valið á afneitun holdsins og refsingum við kynferðislegum hugrenningum, hlytu að stafa af einhverri ónáttúru, en staðreyndin er að drifkraftur þessara manna var einlæg og áköf þörf eftir nærveru hins heilaga anda.
Trú þeirra og sannfæring var sú; að með því að draga athyglina eins langt frá líkamlegum losta og unnt væri, myndi sál þeirra í kjölfarið leita hærra til föðurins mikla á himnum. Góður díll!
Áður en skömmin mætti til leiks – Gamli heimurinn, Grikkir og Rómverjar
Áður en kirkjan haslaði sér völl sem helsta pólitíska miðstýringarapparat sem um getur í sögunni var talsvert fjölskrúðugra um að litast í lystigarði lostans.
Grikkir til forna sköpuðu sér til að mynda guði og gyðjur sem framkvæmdu þá forboðnu hluti sem aðallega fengu útrás í draumórum og undirvitund meðal grikkjans á þessum tíma. Einnig voru þessir guðir og gyðjur, óspart notuð til þess að réttlæta og útskýra hverskonar öfgakennda hegðun sem hinn venjulegi borgari lét eftir sér á góðum degi. Mikið var vitnað í orð Plató sem sagði að mesta blessunin kæmi til okkar í gegnum brjálæði, þegar það væri sent til okkar sem gjöf frá guðunum og himnesk andagift (e. divine inspiration) þótti fyrirtaks útskýring á sjúkdómum eins og geðhvarfasýki (maníu) og flogaveiki.
Til þess að upplifa himneska andagift og fá frípassa á siðferðislegt hömluleysi hverskonar, munu grikkir hafa notað m.a ofskynjunarlyf, tónlist, dans, áfengi og algerlega kynferðislegt hömluleysi sem braust fram í fjölmennum orgíum.
Þau sem voru hvað mest í þessu voru áhangendur Dionyosusar söfnuðarins en guðinn Dionysus var sonur Seifs og konu að nafni Semele. Hann var frjósemisguð og sérlegur verndari víns og vínberja uppskeru. Þetta hlutverk guðsins leiddi eðlilega til þess að víndrykkja var stórvægilega mikilvægur þáttur í helgiathöfnum Dionysusar sem voru haldnar í desember, janúar, febrúar og svo í heilan mánuð frá byrjun mars. Vínið sem var drukkið á meðan á athöfnunum stóð var oftar en ekki bætt með hverkonar efnum og þar á meðal korndrepi samskonar og því sem er uppistaðan í LSD.
Söngur, dans, drykkja, orgíur og annað kynferðislegt hömluleysi. Allt var þetta notað með það fyrir augum að komast í beintengt samband við guðinn, fjarlægjast eigið sjálf og verða eitt með hinu æðra. Kvenkyns fylgjendur Dionysusar voru kallaðar Mænödur (Maenads), eða Bakkynjur -og klæddust þær karlmannsfötum við sumar athafnir.
Klæðskipti voru reyndar algeng í heilögum orgíum ýmissa trúarhópa og tilgangurinn með þeim var að rugla hlutverkum og útmá enn frekar, öll kynferðis -og félagsleg mörk.
Blóðsúthellingar og villtar orgíur
Á þessum tíma var Rómarveldi suðupottur mis-öfgafulla trúarhópa sem bárust til veldisins með þeim fjölmörgu þrælum sem voru sóttir m.a. til Arabíu, Asíu og víðar. Frjósemisgyðjan Cybele, sem er talin vera upprunninn frá Litlu-Asíu, barst m.a. til Rómar fyrir tíð Dionysusar eða Bakkusar eins og hann var kallaður í Róm. Sú bað ekki um lítið því karlkyns áhangendur tjáðu henni tryggð sína með því að umskera, eða gelda sig, með eigin hendi. Cybele söfnuðurinn var einn þeirra fjölmörgu söfnuða sem endurspegluðu ástand Rómarveldis. Til að byrja með voru helgiathafnir áhangendanna nokkuð meinlausar, en í takt við blóðsútehellingar hringleikahúsanna urðu athafnirnar blóðugri og orgíurnar villtari.
Öfgarnar komu einnig fram í ákafa meðlimanna til að halda fast í félaga sína sem drógust að öðrum söfnuðum, til dæmis þeirra sem kenndir voru við Isis, Mithras, Serapis og Guð kristinna manna. Margir þessara trúarsöfnuða urðu þó ekki langlífir og voru lífdagar sumra styttir með hjálp Rómverskra yfirvalda. Til dæmis var Dionysusar söfnuðurinn upprættur árið 186 en þá þótti þetta komið gott.
Mænödurnar höfðu í æsingi sínum og hömluleysi, tekið upp á því að hrifsa, með berum höndum, innyflin úr ungum karlmönnum sem gengust undir innvígsluathafnir trúarreglunnar en löggæslumenn, sem af einhverjum ástæðum vildu losna við yngri samstarfsmenn sína, nýttu sér þetta með því senda strákana til innvígslunnar, nokkuð vissir um að þeir myndu ekki lifa hana af. Þegar upp komst um hryllinginn leiddi það til handtöku 7000 rómverskra borgara.
Kristnin virkaði best
Eftir mikil trúarleg umskipti innan Rómarveldis varð kristni eini söfnuðurinn sem hélt áfram að fjölga áhangendum sínum og það gekk sérstaklega vel eftir að Konstantín keisari tilskipaði hana sem yfirlýsta trú keisaraveldissins á fjórðu öld.
Ástæða þess að Konstantín valdi kristnina fram yfir önnur trúarbrögð, er talinn hafa verið af stjórnmálalegum toga. Jú sjáðu til… skipulagskerfi kirkjunnar þótti einstakt pólitískt verkfæri sem m.a mátti nota til þess að halda saman keisaradæmi sem var að sundrungu komið.
Kristnin, sem afleiðing af þessari ákvörðun, varð þar með einhver sá mesti áhrifavaldur á mannlega hegðun sem hinn vestræni heimur hefur nokkru sinni fengið að kynnast á menningarlegum þróuarferli sínum.
Afneitun holdsins og upphafning andans
Meinlætalifnaður þekkist í flestum trúarbrögðum. Það er að segja, að neita sér um lífsins lystisemdir í þeim tilgangi að ná betra sambandi við almættið, hvernig svo sem það er skilgreint. Meinlætalifnaður gengur í megindráttum út á skírlífi, föstur, fátækt, einveru og sjálfsniðurlægingu sem á að stuðla að sjálfsögun og sjálfsafneitun.
…þetta var ekki alltaf svona
Upprunalegir kirkjunnar feður voru ekki menn sem lögðu stund á meinlætalifnað frá byrjun. Þeir voru í flestum tilfellum venjulegir menn sem lifðu venjulegu kynlífi en urðu síðan hver af öðrum, yfir sig skelkaðir á krafti kynorkunnar og báðu Guð að bjarga sér frá þessum kyngimagnaða krafti holdsins.
Heilögum Jerome fannst kynlíf vera “óhreint” og pískaði hann bak sitt í gríð og erg í hvert sinn sem hugur hans leitaði til líkamlegra nautna. Guð -og siðfræðingurinn Tertullian taldi það “svívirðu” og heilagur Ambrósíus sagði það vera “saurgun”. Fyrir Ágústín var það aðalega missirinn á sjálfsstjórn sem truflaði hann meira en nokkuð annað í þessu sambandi: „Megi okkur vera forðað frá þeim óstjórnlega æsingi og
þeirri hvöt sem leiddi til þess, að þránni var eigi haldið í skefjum og að ósk drottins vors var eigi virt,” skrifaði hann um brottrekstur þeirra Adams og Evu úr sælugarðinum Eden þar sem allir voru allsberir og enginn skammaðist sín, – þá allra síst hún Eva.
Það er meðal annars það sem ekki má…
Samkvæmt kirkjunnar mönnum hafði Guð útbúið okkur mannfólkið með eðlishvöt sem var hreint og beint nauðsynleg til þess að við gætum fjölgað okkur, en það var allur hasarinn, lönguninn og æsingurinn í kring um fjölgunina sem gerði kynlíf skammarlegt og svívirðilegt! Og þar sem allt mannfólk var getið í anda lostans, hélt upprunaleg synd þeirra Adams og Evu áfram að erfast, kynslóð fram af kynslóð.
Þetta þurfti eðlilega að stöðva og þar með voru skráðar niður reglur.
Kynlíf var aðeins viðurkennt innan vígðs hjónabands og eina ásættanlega form kynlífsiðkunar var ef getnaður átti að eiga sér stað. Reglubækur kirkjunnar (frá 6-9 öld e.kr) um kynlífsiðkanir, staðfesta að tilraunir til að stunda kynlíf án þess að getnaður ætti sér stað, var glæpur sem var metinn jafn alvarlega og morð.
Refsing við þessu athæfi var fangelsun eða þrælkun frá tveimur og upp í fimmtán ár. Jafnvel rofið sáðlát (coitus interruptus), sem var eina samþykkta getnaðarvörn Rómversk Kaþólsku kirkjunnar, var álitinn synd og glæpur, en refsingarnar við þeim glæp voru þó töluvert vægari en refsingarnar sem fólk þurfti að sæta ef það hafði tekið þátt í endaþarmssamförum, munnmökum eða neytt drykkjar sem átti að virka sem getnaðarvörn. Kirkjan reyndi einnig að koma í veg fyrir að gift fólk stundaði kynlíf alla daga vikunnar. Kynmök voru bönnuð á Sunnudögum, Miðvikudögum og Föstudögum, fjörtíu daga fyrir páska og jól, og þrjá daga fyrir altarisgöngu. Það var stranglega bannað á meðan syndayfirbót stóð yfir og einnig yfir allt meðgöngutímabilið og þar til fjörtíu dögum eftir barnsburð!
Og svo var byrjað að ritskoða…
Elsta dæmið um ritskoðun kynlífsathafna er að finna frá árinu 411 f.kr. þegar leikrit Aristofanesar, Lysistrata, var bannað opinberlega.
Leikritið fjallar um konur sem neita körlum sínum um að njóta hjónabandsréttar síns til að fá þá til að hætta í stríði. Þrátt fyrir að leikritið hafi verið ákaflega klúrt, var ástæðan fyrir banni þess, eingöngu sú að það þótti ganga of langt í háðsdeilu sinni á stjórnvöld í Aþenuborg. Að sama skapi voru ástæður Ágústínusar keisara, 7 öld, e.kr, fyrir að skipa rómverska ljóðskáldinu Orvid og höfundi verksins Ars Amatoria eða Listir ástarinnar, í útlegð, ekki þær að verkið þótti of dónalegt, heldur var hann ósáttur við pólitískt innihald verksins og notaði klámfengið innihald þess aðeins sem yfirskyn dómsins.
Á 15 öld þegar útbreiðsla prentaðs efnis færðist í aukana og almenningur var móttækilegur fyrir fjölbreyttari skemmtun var tekið upp á því að ritskoða efni og sakfella útgefendur, einvörðungu á þeim forsendum að efnið þætti of klámfegnið.
Breska krúnan óttaðist sérstaklega allt það sem hugsanlega gæti æst upp og hrært í “ómótuðum hugum” og “dýrslegum ástríðum” almúgans en fyrsti úrskurður sem var dæmdur egna útgáfu á klámfengnu efni var á Englandi árið 1727, gegn Edmundi Curll sem gaf út hina klúru bók Venus klaustursins, eða Nunnan á mussunni.
Klám, erótík og kynlífsbyltingin
Í Khajuro á Indlandi stendur gríðarlega stórt musteri sem var byggt á tíundu og elleftu öld e.kr. Musterið er þakið myndum af fólki í margskonar samfarastellingum. Maður og kona, kona og kona, maður með tveim konum og svo koll af kolli. Upprunalegur tilgangur þessara mynda var að gleðja guðinn Indra og Indra sendi í staðinn rigninguna sem frjóvgaði jörðina. Seinna meir varð tilgangurinn með musterinu margbreytilegur í hugum fólks, og fól hann jafnt í sér að skemmta og fræða þá sem komu að skoða musterið, sem og að vekja með þeim losta.
Sú fína lína sem sker úr um hvort áhorfandi upplifir kynferðislegar myndir sem erótík eða klám er mjög breytileg á milli einstaklinga og skilyrt af trúarlegum uppruna, persónulegri reynslu, og viðurkenndu áliti þess samfélags sem einstaklingurinn elst upp í. Af þessari einu ástæðu er nálgun þjóðfélagsins til kláms/pornógrafíu eða erótíkur, framúrskarandi mælistika á tíðaranda samfélagsins hverju sinni.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=ppZwSABxeYE[/youtube]
Sem dæmi um mælingu þessara viðhorfa má nefna verk bandaríska rithöfundarins og vísindamannsins Alfred Kinsey, sem gerði víðtækar rannsóknir á kynhegðun bandaríkjamanna á árunum 1948-53. Niðurstöðurnar komu flestum á óvart, jafnvel þeim sem tóku þátt í rannsókninni!
Í þeim kom meðal annars fram að amerískir karlmenn voru flestir um fimmtán ára þegar þeir byrjuðu að stunda kynlíf. Flestir höfðu einhverntíman girnst annan karlmann og 37% höfðu látið undan lönguninni og gert eitthvað í því. Einnig kom í ljós, í skýrslu hans frá árinu 1953, að flestar amerískar konur voru ákaflega kynferðislega virkar, innan hjónabands sem utan, með bæði körlum sem og öðrum konum!
Niðurstöður Kinseys leiddu til þess að öll umræða um kynlíf varð opnari og braust á endanum út í kynlífsbyltingu fimmta áratugarins og upphafs þess sjötta.
Kvenfrelsishreyfingin bærir á sér
Á þessu tímabili árið 1963, gaf Betty Friedan út bókina The feminin mystique og sú bók er talin hafa verið kveikjan að kvenfrelsishreyfingunni sem breiddi úr sér um gervallan vestrænan heim.
Árið 1965 voru getnaðarvarnir löggiltar um gervöll Bandaríkin og 1969 varð Danska þjóðin fyrst allra þjóða til að leggja niður allar þær ákærur sem voru höfðaðar gegn dreifingu, framleiðslu eða sölu á pornógrafíu.
Í þá daga og enn í dag, líta margir frjálshyggjumenn -og konur, á klám sem miðil tjáningarfrelsis og öflugt vopn gegn forræðishyggju og yfirvaldi en einn fremsti talsmaður frjálshyggjufeminisma (ef svo má að orði komast) er fræðimaðurinn og feministinn Camille Paglia.
Gagnrýnandandinn Susan Sontag bar klám saman við trúarbrögð í frægri ritgerð sem hún skrifaði árið 1967.
Í ritgerðinni hélt hún því fram að klámið, líkt og trúarbrögðin, máði út öll mörk og færði þannig áhorfandann/lesandann frá sínu eigin sjálfi. Það sama gerðu trúarbrögðin með því að færa manneskjuna nær Guði í gegn um trúarathafnir.
Sontag vildi meina að það væri í þessum göfuga tilgangi sem höfundar á borð við Marquis de Sade, George Bataille og Pauline Régae, (höfundur sögunnar um O), hafi útilokað öll kynferðissleg tabú úr sögum sínum og ruglað saman kynjahlutverkum, valdahlutverkum og öðru sem tengist hefðbundnum venjum í kynlífi.
Þrátt fyrir þennan sparilega samanburð frú Sontag er ekki alls ekki hægt að halda því fram að allt klámefni hafi svo mikilfengleg áhrif.
Flest klámefni er mjög hefðbundið. Það er að mestu markaðssett fyrir karla og þjónar aðallega þeim tilgangi að vera uppfylling í fantasíur og flóttaleið frá hversdagslífinu.
Sontag heldur því þó staðfastlega fram að það óhefðbundna klám sem er framleitt í dag (drottnun og undirgefni, sadómasókismi o.þh.) sé svörun hinnar mannlegu þarfar fyrir persónulega upplifun af algleymi og að framleiðendur þess séu í raun að taka að sér það hlutverk sem kirkjunni var ætlað en tekst ekki lengur að uppfylla.
Það væri þó ekki skýringin á þessu fyndna 50 Shades æði? Tjah? Gleðilega páska! 🙂
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.