Í gær birtist hér á Pjattinu grein um frægar með líkamshár sem ekki voru fjarlægð fyrir myndatökur.
Greinin olli miklum umræðum inni á Facebook síðu okkar en það er ljóst að fólki getur orðið heitt í hamsi þegar búkhár eru annarsvegar og það ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu.
Árið 2007 byrjaði ljósmyndarinn Ben Hooper að taka myndir í seríu sem hann kallar “Natural Beauty”. Með myndunum vildi hann deila á það sem hann kallar ‘heilaþvott’ í samfélaginu sem fegrunarbransinn hefur komið á.
Nú, sjö árum síðar, hefur hann gefið þessa seríu út en myndirnar birtust fyrst hjá Huffington Post. Hann fékk bæði fyrirsætur, leikkonur, hönnuði og vinkonur sínar til að sitja fyrir en allar söfnuðu þær hárum undir höndunum fyrir myndatökuna.
Hér vil hann gera áhorfendum ljóst að fegurð og líkamshár geta vel farið saman en hingað til hefur þetta tvennt alls ekki þótt fara saman, víðast hvar á vesturlöndum því sjaldan sjást konur léttklæddar meðal almennings án þess að hafa rækilega fjarlægt öll sýnileg hár áður.
Í viðtali við Huffington Post segist ljósmyndarinn hafa áttað sig á því, eftir því sem hann varð eldri og þroskaðari, að hann var bara mjög hrifin af líkamshárum.”
Eftir að hann hafði samið við fyrirsæturnar um að taka þátt í verkefninu áttaði hann sig á að þær voru meira að segja hræddar við að láta hárin vaxa, þrátt fyrir að vera til í myndatökuna. Ein sem byrjaði að láta hárin vaxa fékk svo mikið ógeð á ástandinu að hún dró sig til baka úr verkefninu og hætti við.
“Það sem mig langar að tefla hérna saman er þessi venjulega fegurð kvenna sem við eigum að venjast í tímaritum og auglýsingum á móti krikaloði,” segir Hooper. “Ég reikna með að þetta muni koma fólki á óvart og í raun er ég að vonast eftir slíkum viðbrögðum. Fegurð og líkamshár geta vel farið saman”.
“Ég vil ekkert endilega hvetja konur til að láta sér vaxa krikaloð. Ég vil bara benda á að þetta er möguleiki og fólk á ekkert endilega að láta eins og þetta sé ekki hægt, eða valkostur ef út í það er farið. Mig langar einfaldlega til að fólk setji spurningar við fegurðarstaðlana sem við samþykkjum oft umhugsunarlaust.”
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.