Undanfarið hefur það pirrað mig að lesa forskeytið “kreppu” fyrir framan söluvarning.
Það er að segja, mér finnst það hálf klámfengið að reyna að selja varning á þeim forsendum að við búum við efnahagskreppu.
Gott og vel að selja hlutina ódýrt eða á lækkuðu verði en þegar það er farið að nota kreppuna í viðskiptalegum tilgangi þá er eiginlega eitthvað að.
Þessvegna heillar það mig ekki hið minnsta að lesa um ‘krepputilboð’. Kreppa er ekki díll heldur alvarlegt ástand sem stendur yfir í mislangan tíma og hefur víðtækar afleiðingar á bæði börn og fullorðna, heilsu, menntun, atvinnu og margt fleira.
Það er því ósmekklegt að reyna að selja hluti eða þjónustu á þessum forsendum. Í það minnsta hafa ‘krepputilboðin’ þveröfug áhrif á mig.
Svo er það þetta átak ‘Spilum saman’
…eða hvað það nú heitir. Þetta er vægast sagt einkennileg pæling vegna þess að íslenskar verslanir hafa aldrei unnið með okkur. Og nú hafa þær margar hækkað verð upp úr öllu valdi á margvíslegum misréttlátum forsendum. Sumt hefur hækkað að óþörfu.
Auðvitað vilja verslunarmenn alltaf fá kúnna. Þeir hækkuðu verðlagið í takt við lækkun á virðisaukaskatti á mat þegar góðærið stóð sem hæst og nú hækka þeir ‘af því allt hefur hækkað’. Og við eigum að eyða peningum áfram. Þetta heitir ekki að vinna saman.
Hinsvegar má Maður Lifandi eiga það að nú hefur verðlag á heilsuvörum þeirra lækkað talsvert mikið. Ég var á vappinu þarna um daginn og sá að margvísleg vara, t.d. spelthveiti, pesto og sitthvað fleira hafði lækkað niður í verðlag sem lét kortið ekki öskra af sársauka þegar það var straujað.
Svo skilst mér að kvennabankinn Auður Kapítal reki nú fyrirtækið. Það útskýrir kannski lækkunina?
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.