Alheimurinn!, ný (barna)plata með Dr. Gunna og vinum hans, er komin út. Þetta er fjórtán laga plata, sem inniheldur bara skemmtileg lög fyrir börn og aðra sniðuga einstaklinga.
Fyrsta lagið sem heyrðist af plötunni var Glaðasti hundur í heimi, sem Friðrik Dór syngur. Það var gríðarlega vinsælt í sumar og haust, svo vinsælt að lagið hreinlega límdi sig líkt og Gangnam Style forðum í heila bæði barna og fullorðinna.
Fjölmargir aðrir gestir syngja á plötunni. Sóli Hólm, Bjartmar, Jakob Frímann og Mugison koma fram í Brjáluðu stuðlagi. Jóhann Helgason syngur Ræ ræ ræ.
Helgi Björnsson syngur Ég elska flugur. Lóa í FM Belfast syngur Frekjudósina og Haukur (úr Morðingjunum) og Steinunn (betur þekkt sem Dj Flugvélar og geimskip) syngja dúett í laginu Besti vinur minn er geimvera. Dr. Gunni og Heiða syngja rest, m.a. lögin Gubbuhesturinn, Krummi á staur, Gluggaveður og Sófinn gleypti mömmu og pabba.
Það eru sextán ár síðan fyrsta (barna)plata Dr. Gunna og vina hans, Abbababb! kom út árið 1997. Á henni ruddi hið vafasama Prumpulag brautina. Líkt og Abbababb! er Alheimurinn! safn léttleikandi lífsglaðra popplaga með textum sem sækja í hugarheim og umhverfi barna.
Lögin og textana sömdu Dr. Gunni og Heiða Eiríks. Upptökur fóru fram í Geimsteini í Keflavík sl. sumar, en það er einmitt hið rótgróna útgáfufyrirtæki Geimsteinn sem gefur Alheiminn! út.
Plötunni verður fylgt eftir á næstu vikum, bæði í leikskólum og í verslunarmiðstöðvum. Rosa stuð! Enn meira sprell er svo fyrirhugað eftir áramót, þ.á.m. eiginlegir útgáfutónleikar.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.