Ég var fengin til að skrifa grein í Læknanemann, tímarit læknanema. Greinin er útlistun á einkennum lækna eftir því hvaða stjörnumerki þeir tilheyra.
Ég er nú þegar búin að birta vatnsberann, fiskinn, hrútinn, nautið og tvíburann. Hér kemur krabbinn.
Krabbinn 21. júní – 22. júlí
Umönnun er krabbanum eðlislæg. Það er eins og hann fæðist í þennan heim í þeim tilgangi að hlúa að og hjúkra öðrum. Krabbinn hefur svo mikla þörf fyrir að hjálpa fólki að það jaðrar við þráhyggju, honum finnst það hreinlega vera skylda sín að aðstoða aðra.
Krabbinn telur að fjölskylda og vinir séu einn mikilvægasti þáttur tilverunnar og því gæti hann orðið góður barnalæknir, fæðingalæknir eða heimilislæknir. Hann mun líka vilja stunda lækningar sem eru ekki mjög áhættusamar eða óhefðbundnar. Þá er hann vís til að sinna sama starfi til lengri tíma og byggja upp góð sambönd við sjúklinga sína.
Krabbinn ætti að varast að láta sjúklinga sem væru vísir til að notfæra sér góðmennsku hans fá farsíma eða heimanúmerið sitt. Nánar tiltekið verður hann að passa sig á að vera ekki of tilkippilegur svo hann brenni ekki út eða verði vansæll.
Hvað varðar annars konar umönnun en lækningar þá kemur hjúkrun og sálgreining vel til greina.
Frægir krabbar: Díana prinsessa, Meryl Streep, Nelson Mandela og fleiri frábærir!
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.