Brjóst eru magnað og merkilegt fyrirbæri. Þau koma í allskonar stærðum og gerðum og allar konur eiga í ákveðnu „sambandi“ við brjóstin á sér. Sumar eru sáttar með sín, öðrum finnst þau of lítil, of stór of sigin, slitin, fyrirferðarmikil og svo fram eftir götunum. Undanfarið hefur verið mikil umræða um áhrif sílikonpúða á heilsu og útlit kvenna enda hafa læknavísindin leitt í ljós að í sumum tilvikum geta púðarnir leitt til heilsufarsvanda. Þó margar konur séu eðlilega mjög sáttar með árangurinn eftir að hafa farið í brjóstastækkun eru sífellt fleiri sem ákveða að láta fjarlægja púðan og þar liggja allskonar mismunandi ástæður að baki sem tengjast ekki bara brjóstapúðaveiki.
Óheppilegar útlitsbreytingar
Stundum geta sílikonpúðar skekkst með tímanum eða orðið ójafnir og skrítnir. Það geta t.d. myndast rifflur í þá sem eru sýnilegar og gera konur of meðvitaðar um útlitið sem kemur niður á sjálfsörygginu. Breytingarnar geta stafað af ýmsu, t.d. með aldrinum og þegar þyngdin fer upp eða niður, eða vegna þess að fyllingin í sjálfum brjóstunum minnkar og þá verður púðinn „laus“ í brjóstinu. (Ef þetta truflar þig á hverjum degi, svona meira eða minna, þá skaltu drífa þig í að láta laga þetta hvort sem þú velur að taka púðana burtu eða ekki. Lífið er of stutt til að láta gamla brjóstapúða eyðileggja það).
Breytt viðhorf
Viðhorfin í brjóstamálum hafa breyst mjög undanfarið og á frekar stuttum tíma. Brjóstaaðgerðir urðu mjög vinsælar um síðustu aldamót hjá ungum konum sem flykktust á skurðarborðin eftir að hafa fengið sér tattú á mjóbakið. Í dag eru þessar konur hinsvegar orðnar miðaldra og hafa þar af leiðandi breyttar hugmyndir um sjálfar sig sem kynverur og útlitslega.
Þessi stefnubreyting í viðhorfum x-kynslóðarinnar (1968-1975) eru áberandi víðast hvar á vesturlöndum samkvæmt vefsíðunni realself.com og þetta á víst einnig við hér (realself.com er mjög gagnleg síða um allt sem viðkemur fegrunaraðgerðum). Svo hafa stór brjóst ekki „verið í tísku“ síðustu ár (rassarnir hafa tekið við) og því eru það einnig yngri konur sem ákveða að drífa sig og láta taka þá.
Breytingar eða ofvöxtur á örvefnum
Stundum getur örvefurinn sem myndast kringum sílikonpúðana (eða aðra aðskotahluti í líkamanum), vaxið um of og það getur valdið verkjum, óþægindum og/eða óheppilegu útliti. Púðinn gæti þannig færst til hliðar eða of ofarlega á bringuna, eða hreinlega hætt að “passa” inn í brjóstið. Í svona tilfellum er nauðsynlegt að láta fjarlægja vefinn (og þar með púðann) til að stöðva þessa örvefsmyndun.
Ertu að spá í að láta taka þá?
Áður en þú ákveður endanlega að láta fjarlægja púðana þína og bóka tíma í aðgerð skaltu ráðfæra þig mjög vel við lækni og helst fá álit frá tveimur eða fleiri mismunandi sérfræðingum ef þú getur.
Læknar beita stundum ólíkum aðferðum og meta hlutina misjafnlega og þú verður að velja þann sem þér lýst betur á. Spurðu hann spjörunum úr (ekki bókstaflega samt) áður en aðgerðin fer fram og undirbúðu þig vel og vandlega með því t.d. að spjalla inni á Facebook grúbbum, lesa heimasíður lækna og ráfa um netið.
Bara taka eða taka og stækka?
Mjög margar konur láta lyfta brjóstunum upp þegar púðarnir eru teknir (ef það er ekki gert er stundum hætt við að brjóstið muni líta út eins og sprungin blaðra). Láttu lækninn þinn meta hvort hann eða hún telji að útkoman muni verða betri ef þú lætur lyfta um leið. Þú vilt jú vera ánægð og aðallega snýst þetta um að losna við púðann. Þær sem láta lyfta um leið og púðinn er tekinn verða enn frekar ánægðari með útkomuna.
Bataferlið
Bataferlið getur verið mjög mismunandi eftir konum. Stundum tekur það langan tíma meðan aðrar konur eru mættar í vinnu viku eftir aðgerð. Sumar fá dren en aðrar ekki og stundum eru aðrar aðgerðir gerðar um leið.
Þetta skoðar þú allt með þínum lækni og hika við að hringja í Læknavaktina, eða í lækninn þinn ef eitthvað skyldi mögulega koma upp á eftir aðgerð. Reiknaðu samt alltaf með að þurfa að bíða í sirka sex vikur með að fara í ræktina. Þú tekur bara göngutúra í staðinn.
Mundu að þetta er fyrst og fremst persónuleg ákvörðun sem snýr aðeins að þér sjálfri og þú skalt ekki hlusta á álit og skoðanir annarra (en læknisins) þegar þú vegur þetta og metur.
Að því sögðu þá er samt allt í lagi að bæta því að samkvæmt RealSelf.com þá er ánægjan eftir svona aðgerð 97% gleði.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.