Á vef viðskiptablaðsins í dag er stutt viðtal við Halldóru Kötlu Guðmundsdóttur sem birti nýlega niðurstöður meistararitgerðar sinnar. Í henni skoðaði Halldóra muninn á konum og körlum þegar kemur að vinnustaðapólitík.
Niðurstöður hennar koma kannski ekki sérstaklega á óvart enda kannast margar konur við hvað vinnustaðapólitík getur verið flókið og leiðinlegt fyrirbæri, þá sérstaklega ef þær vilja klífa hinn svokallaða metorðastiga.
„Mér fannst þetta spennandi nálgun þar sem konur hafa verið að upplifa hindranir á leið til stöðuhækkana þrátt fyrir aukna menntun og atvinnuþátttöku, jafnréttislög, lög um feðraorlof og fleiri mikilvæg skref í átt að jafnrétti á vinnumarkaði. Ég vildi því skoða hvort ástæða fyrir ólíkum árangri kynjanna gæti legið í mismunandi aðferðum þeirra í vinnustaðapólitík,“ segir Halldóra í viðtalinu við Viðskiptablaðið.
Halldóra segir að margt bendi til þess að konur þurfi að tileinka sér leikreglur karla í vinnustaðapólitík til að ná meiri árangri, ef þær kjósi það.
„Karlar og konur virðast stunda vinnustaðapólitík á ólíkan hátt, karlar taki meiri þátt í henni en konur og beiti öðrum aðferðum. Þeir beiti henni frekar til að fá stöðuhækkanir, á meðan konur beiti henni til að verja sig. Karlar séu árangursmiðaðir í sínum bandalögum, á meðan konur myndi klíkur til að verja sína hagsmuni; karlar tali saman í bakherbergjum og taki ákvarðanir, á meðan konur baktali hver aðra; karlar séu duglegir að virkja tengslanet sín utan vinnutíma, á meðan konur setji heimilið í forgang; og að karlar séu vanir að gera greiða gegn greiða, á meðan konur séu feimnar að innkalla greiða,” segir Halldóra í viðtalinu við Viðskiptablaðið.
Kven-skemmandi jafnréttismenning?
Síðustu ár hef ég séð nokkrar góðar og mjög vel menntaðar vinkonur mínar fara út í eigin rekstur, einfaldlega af þeim ástæðum sem Halldóra nefnir í þessu viðtali. Þær vilja ekki sólunda hæfileikum sínum og starfsorku í vinnustaðapólitík sem þessa. En hvað er eiginlega í gangi? Maður spyr sig…
Í gegnum árin hefur samstaða kvenna í réttindabaráttu hverskonar einkennst af konseptinu “Við konur”.
Þannig eru konur sérstakur hópur sem berst fyrir hinum ýmsu réttlætismálum og hópurinn stendur saman í því. Eðlilega.
Samstöðunni virðast þó fylgja bæði kostir og gallar en einn gallinn er sá að fyrirbærið konur þarf alltaf að vera á sama level.
Fólk sem kannast við hið norræna Jantelov veit hvað ég á við. Þannig reyna konur oft að halda hvor annari niðri svo að ljósið skíni nú ekkert sérstaklega á einhverja eina eins og fram kemur í ritgerð Halldóru.
Þannig passar sú sem klifið hefur metorðastigann sérstaklega upp á, að enginn skyggi á hana sjálfa, og þær sem neðar sitja verða reiðar, bældar og afbrýðissamar enda fá þær ekki notið sín í starfinu.
Í þessu samhengi virðast þær sem klifið hafa ofarlega í metorðastigann oft vinna tvöfalt meira en margir karlar í sömu stöðu, enda er tilgangurinn sá að passa að enginn kynsystir komist nú á sama blett að láta sitt ljós skína. Að sama skapi eiga konur oft mjög erfitt með að taka við skipunum frá kynsystrum sínum sem ofar sitja, – því við erum jú allar á sama level sjáið til. Við konur.
Enn í mótun
Að konur raði sér í stjórnunar og leiðtogastöður er eðlilega nokkuð nýtt fyrirbæri og hverskonar protocol eða siðareglur/hefðir þessu tengdar eru enn í mótun. Fyrsta skrefið í rétta átt er að kvenmenn láti af baktali og viðurkenni hæfileika, reynslu, menntun og þekkingu kynsystra sinna og leyfi þeim að njóta sín sem einstaklingar í starfi, óháð kyni.
Það er auðvitað enginn feminismi í því að geta ekki viðurkennt að önnur kona skari manni fram á einhverju sviði en eiga auðvelt með að hugsa sér að karl geri það. Það er enginn feminismi að kven-yfirmaður leyfi ekki undirmanni af sama kyni að njóta sín í starfi af ótta við að það skyggi á hana sjálfa og það er enginn feminsimi að kven-undirmaður ráði illa við að taka við boðum frá yfirmanni af sama kyni.
Það verður gaman þegar sá dagur rennur upp að konur fá að njóta sín sem einstaklingar og þurfa ekki lengur að þjappa sér saman eins og minnihlutahópur í jafnréttisbaráttu sinni.
Það verður gaman þegar sá dagur rennur upp að karlarnir okkar setji heimilið í forgang til jafns við okkur og við eflum tengslanetið til jafns við þá. Förum út í bjór með stelpunum, aðeins í þeim tilgangi að efla tengslanetið og þeir beint heim eftir vinnu, í þeim tilgangi að efla tengslin við fjölskylduna.
Feminsimi er í mínum huga ekki fræðigrein í háskóla heldur lífið sjálft. Menning okkar í mótun og þróun.
Órjúfanlegur hluti af frelsi og jafnrétti er rétturinn til að fá að vera ólík sem einstaklingar. Ef konur mega ekki vera ólíkar innbyrðis og þurfa alltaf, undir formerkjum Jante, að vera á sama plani til að ögra ekki jafnréttisbaráttunni þá er stór skekkja í myndinni. Ef konur taka ekki mark á kynsystrum sínum á vinnustaðnum, þola ekki að sjá þær láta ljós sitt skína, hlusta frekar á karla og baktala kynsystur sínar til að vernda eigin hag, – þá erum við auðvitað í pínu rugli með þessa jafnréttisbaráttu.
Ég er sjálf ekki með neina niðurstöðu í þetta sinn. Aðeins fullt af vangaveltum. Ég verð þó að segja að mér finnast niðurstöður Halldóru Kötlu mjög áhugaverðar og ég ætla mér að lesa þessa ritgerð í heild sinni.
Vonandi verða niðurstöður hennar allt öðruvísi ef hún skyldi rannsaka vinnustaðapólitík aftur eftir tíu ár.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.