Sveppatripp, kuldaböð, klobbakærleikur og sitthvað fleira er tekið til skoðunar í nýjum Netflix þáttum á vegum Gwyneth Paltrow en þættirnir heita The Goop Lab og ganga út á að vinir/starfsmenn leikkonunnar prófa sig áfram með allskonar óhefðbundnar lækningaraðferðir og hafa opinn huga að leiðarljósi.
Talsmenn Netflix segja þáttaröðina hannaða til að skemmta áhorfendum, en ekki að veita fólki heilbrigðisráðgjöf en samt hafa þættirnir hrist rækilega upp í sumum. Til dæmis Simon Stevens, yfirmanni bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS sem segir að almenningi stafi „talsverð hætta“ af þáttunum en í frétt BBC er haft eftir Stevens að með þáttunum sé verið að dreifa villandi upplýsingum um bæði vafasamar vörur og varasamar starfsaðferðir.
Sveppatrippið virkaði
Þættirnir, sem eru sex talsins, voru teknir til sýninga á Netflix fyrir viku og ég horfði á fyrsta þáttinn í gær. Í honum er sýnt frá því þegar starfsmenn Gwyneth, tvær konur og einn krúttlegur karl, taka sveppi undir handleiðslu þriggja „sveppagúrúa“ í þeim tilgangi að losa um tilfinningar og komast yfir sársauka og erfiðleika. Skemmst er að segja frá því niðurstöðurnar voru svakalega jákvæðar fyrir hópinn og það sama gilti hjá hermanni sem tók MDMA (virka efnið í e-pillum) til að komast yfir alvarlega áfallastreitu, og 75 ára konu sem notaði sveppi til að jafna sig á kvíða eftir krabbameinsmeðferð.
Það sem var sjúkdómur fyrir 30 árum er það ekki lengur
Mér hefur alltaf þótt áhugavert að pæla í því hvernig viðhorf til sjúkdóma og lækninga breytast í gegnum áratugina. Einu sinni þótti „kynvilla“ til dæmis alvarlegur sjúkdómur og fólk var sent á geðveikrahæli til betrunar. Hystería, eða móðursýki, átti líka að vera sjúkdómur hjá tilfinningaríkum konum og svona mætti reyndar lengi telja. Svo er auðvitað búið að finna upp nýja andlega sjúkdóma sem ekki þekktust áður og töldust jafnvel til karaktereinkenna hjá fólki.
Björgúlfur Thor fjárfesti í svepparannsóknum
Þegar ég fór í Google leiðangur um þetta sveppamál sá ég að fjárfestirinn Björgúlfur Thor er búin að setja 2,86 milljarða kr. til að rannsaka hvort psilocybin, virka efnið í ofskynjunarsveppum, sé gott til að meðhöndla þunglyndi. Kannski að Simon Stevens skipti um skoðun ef vísindalegu niðurstöðurnar reynast jákvæðar svo hægt verði að selja sveppalyf í töfluformi? Maður spyr sig. Áhugsasamir Íslendingar þurfa samt ekki að borga fyrir þetta þar sem sveppirnir vaxa hér um allt líkt og bláber og krækiber á haustin. Bara spurning með gúrúana og handleiðslu.
Eldri borgararnir og CBD
Um jólin fór ég til Kanarí og átti gott sessjón með nokkrum eldri borgurum sem ala þar manninn yfir veturinn (mjög fyndin og skemmtileg reynsla). Við röbbuðum um hitt og þetta yfir smá brandý og meðal þess sem bar á góma voru CBD olíur sem mörg þeirra eru byrjuð að nota við ýmsum kvillum, t.d. gigtarverkjum og svefnleysi. Olíurnar er hægt að kaupa í heilsubúðum á Spáni og eru löglegar þar í landi sem og í fleiri löndum Evrópu. Gamla gengið lét mjög vel af áhrifunum en merkilegt nokk er búið að banna þetta hér á Íslandi eins og svo margt annað sem tengist heilsufarslausnum. Þó eru margir að selja olíurnar enda er eftirspurnin víst gríðarleg.
Nú leikur mér forvitni á að vita hvort lesendur Pjattins væru til í að taka sveppi undir handleiðslu til að komast yfir vandamál sín eða nota CBD olíur? Erum við opin fyrir framandi lausnum eins og hin hættulega Gwyneth og félagar mínir á Kanarí eða viljum við frekar taka mark á því sem embættismenn ríkisins hafa að segja? (Nú eða bíða þar til heilbrigðisvöldin hafa pakkað lausnunum í umbúðir sem hægt verður að nálgast í apóteki?)
Endilega tikkaðu í box svo við fáum betri innsýn. Könnunin er auðvitað alveg nafnlaus:
PS: Svo væri mjög gaman að lesa athugasemdir í kommentum hér neðst á síðunni. Mér finnst þetta svo áhugavert!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.