Í gærkvöld var mér sögð saga… ég veit ekki hver skrifaði hana en svona var hún:
Það voru einu sinni tvær konur sem bjuggu í sama húsi, önnur á efri hæðinni og hin á þeirri neðri.
Maður þeirrar á efri hæðinni vann sína launavinnu, konan var heima og sá um heimilið, hafði stofustúlku til húsverka og las dönsku blöðin þegar færi gafst. Í vikulok kom síðan maðurinn með launin, lagði þau á borðið og konan notaði aurinn til að sjá um rekstur heimilisins.
Maður þeirrar á neðri hæðinni vann líka sína launavinnu. Konan var eins og grannkonan á efri hæðinni heimavinnandi húsmóðir. Maðurinn hennar kom líka alltaf með vikulaunin heim á föstudögum en í stað þess að leggja peningana á borðið, notuðu hjónin aurinn til að fara út á lífið og skemmta sér smávegis með brennivíni.
“Já, og síðan leyfi ég honum að lemja mig þegar við komum heim. Hann verður nefnilega svo ægilega leiður yfir því næsta dag og þá gefur hann mér eitthvað ofsafallegt; fatnað eða skartgripi,” heyrðist konan segja með ánægjutón í röddinni.
Konan á efri hæðinni vorkenndi þeirri fyrir neðan sig mjög mikið að vera lamin reglulega. Aftur á móti vorkenndi þessi á neðri hæðinni grannkonu sinni alveg jafnmikið… já því hún fékk aldrei neinar gjafir.
Ótrúlegt.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.