Því fer fjarri að hún sé besta söngkona í heims en hún hefur verið á toppi skemmtanaiðnaðrins frá árinu 1984 og er einn frægasti poppari jarðarinnar.
…hún hefur einnig haldið athygli heimsins á sér með hneykslanlegum og misgrófum athöfnum.
Konan er Madonna. Hún er flott af því að hún er ötul og framagjörn, veit nákvæmlega hvað hún vill og hvernig hún ætlar að ná í það.
Það er erfitt að átta sig á Madonnu enda manneskjan full þversagna. Í bernsku var hún fyrirmyndarnemandi en kom þó fyrst fram á sjónvarsviðið sem lævís götudræsa, sjúk í kynlíf – enda vissi hún að kynlífið selur. Í menntaskóla var hún siðprúð klappstýra en blés seinna á hefðbundin amerísk gildi og hóf að gramsa eftir fötum á flóamörkuðum. Þar fann hún götudræsustílinn sinn og varð mikill áhrifavaldur tískunnar. Við vorum margar með permanent túberað hár, krossa og í blúndugrifflum árið 1984, alveg eins og Madonna í Like a Virgin.
Ólíkt okkur hinsvegar, át Madonna upp úr öskutunnum og lifði á poppkorni til að geta lært dans hjá Mörthu Graham og Pearl Lang í New York. Hún var staðráðin í að verða eitthvað.
Madonna kemur sér sífellt í fréttir með því að hneyksla fólk. Hún virðist búa sjálfa sig til í hvert sinn og koma með nýja, betrumbætta útgáfu af sjálfri sér. Í upphafi ferils síns var hún Boy Toy, seinna breyttist hún í Material Girl, þá Marilyne Monroe með platíníum litað hár og loks tók hún 360 gráðu snúning yfir í kabbalaiðkandi jógagúrú.
Mér finnst kúl að hún hafi síðast deitað bráðungt og huggulegt karlmódel -og hún er margra barna mamma. Auðvitað spyr ég mig hvað komi næst?
Það er enn áhugaverðara að þetta fyrirbæri einskærrar sjálfsdýrkunar í konulíki sé í raun ein „snjallasta fjármálakona Bandaríkjanna“ eins og tímaritið Forbes lætur hafa eftir sér.
Það er líka deginum ljósara að Madonna hefði aldrei komist eins langt og raun ber vitni hefði hún ekki haft vit í kollinum til að stjórna veldi sínum með kænsku og hörku. Nokkrar menntastofnanir í Bandaríkjunum hafa meðal annars boðið upp á námskeið um konuna. Þekktastur þeirra er vafalaust sjálfur Harvardskóli.
Heimild: Madonna án ábyrgðar, Christopher Andersen, Skjaldborg hf 1992.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.