Kolbrún Pálína Helgadóttir, markaðsstjóri Sporthússins er með fegurri og sprækari konum þessa lands en hún hreyfir sig sex sinnum í viku og segist löngu hætt að “svindla” í mataræðinu til þess eins að valda sjálfri sér vanlíðan.
Við tókum þessa flottu konu tali og fengum meðal annars uppskrift að heillandi bláberjaköku… best að geyma þá uppskrift fram á haustið…
Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?
Ég æfi reglulega, borða í heildina mjög hollan og góðan mat, fer reglulega til kírópraktors, sinni andlegu heilsunni og slaka á í sundi og í sveitinni. Það er lífsnauðsynlegt að hlaða batteríin til að halda góðu jafnvægi á öllum sviðum.
Hvar ertu að æfa og hversu oft í viku?
Ég æfi í Sporthúsinu þar sem ég starfa en þar lyfti ég og púla með einkaþjálfara mínum honum Guðjóni, þrisvar í viku og svo fer ég í Hot yoga tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Ég hef fundið góðan takt í því að blanda þessu tvennu saman.
Hverju finnst þér auðvelt að sleppa úr mataræðinu og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?
Í dag nenni ég ekki að „svindla“ eða setja eitthvað rusl ofan í mig sem að ég veit að veldur mér vanlíðan.
Þegar ég er í stuði fyrir smá trít þá bý ég til heimalagaðar pizzur með fullt af flottu áleggi og finnst það æði.
Annars kann ég bara vel að meta góðan mat og er alltaf að prófa mig meira og meira áfram í að baka hollar og dásamlegar kökur.
Hvað færðu þér í morgunmat?
Undanfarið hef ég byrjað daginn á einu glasi af heimalöguðum engifer og sítrónusafa með cayanpipar útí, – svo einhverju síðar fæ ég mér chiagraut, hafragraut eða ávöxt og kaffibolla.
Um helgar gerir ég svo hafragraut, baka spelt lummur, sýð egg og sker niður ávexti. Algjör unaður!
En á milli mála?
Á milli mála fæ ég mér til dæmis ávaxtasalat, poppkex með hnetusmjöri og banana, epli með hnetusmjöri, hrökkbrauð með kjúklingaáleggi og avoqado, froosh eða hámark. Það er um að gera að hafa fjölbreytni á milli daga og prófa reglulega eitthvað nýtt.
Geturðu gefið okkur eina góða og einfalda uppskrift að einhverju heilsusamlegu?
Þessi holla kaka sló í gegn í saumaklúbbi hjá mér á dögunum – það er líka bara eitthvað við það að borða hjartalaga mat!
Hjartalaga hrákaka
- 200 gr. Döðlur – lagðar í bleyti í 10 mín
- 100 gr. Möndlur
- 100 gr. Kókósmjöl
- 1/2 tsk. Vanilluduft eða dropar
Aðferð:
Möndlurnar eru settar í matvinnsluvél í stutta stund og svo restin af hráefnunum þar á eftir. Öllu þjappað saman í silikonform. Sett í frysti í ca 10 – 15 mín.
Lífrænu hnetusmjöri smurt yfir, magn fer eftir smekk. Kakan sett aftur í frysti á meðan súkkulaðið er búið til.
Súkkulaðibráðin:
- 1 dl. Kókósolía (brædd í vatnsbaði)
- 1 dl. Hreint hrákakó (lífrænt)
- 1/2 dl. Agave sýróp
Hráefnunum er blandað saman og hellt yfir kökuna sem er svo sett aftur í frysti þar sem hún geymist best. Kakan er borin fram ísköld og skreytt að vild!
Njótið!
Skiptir máli að vera töff í ræktinni? Áttu þér uppáhalds línu í íþróttafötum?
Auðvitað er það ekki eitthvað sem skiptir máli þegar markmiðið snýst um að koma sér í form. Hinsvegar er það mín skoðun að það er skemmtilegra að æfa í litríkum og góðum íþróttarfötum. Ég er kolfallin fyrir Nike enda hátísku æfinga og street fatnaður og fagna því mikið að geta klæðst Nike bæði í vinnu og við æfingar.
Nefndu eina konu eða karl í heilsugeiranum sem þér finnst frábær fyrirmynd
Anni Mist er að mínu mati ótrúlega flottur fullrúi bæði kveðjþjóðarinnar og heilsunnar. Hún er með skýr markmið, veit fyrir hvað hún stendur og hver hún er. Virkilega aðdáunarvert að fylgast með henni.
Hvort ertu meira fyrir jóga og lífrænan lífsstíl eða lyftingar og próteinsjeika?
Ég aðhyllist jóga meira og meira með hverju árinu en finn samt mikilvægi þess að þjálfa vöðvana með lyftingum á móti. Það er þessi gullni meðalvegur sjáðu til! Ég fæ mér ca eitt próteinskot á dag og borða svo hreinan og góðan mat, ávexti og grænmeti.
Hvaða æfingar finnst þér skemmtilegastar?
Hot Yoga er búið að eiga hug minn svolítið lengi. Ég fæ mjög mikið út úr því að æfa í hitanum og finna liðleikann og styrkinn aukast með hverjum mánuðinum.
Tekurðu þér frí frá æfingum?
Að sjálfsögðu, það er jafn mikilvægt að hvíla eins og að æfa. Svo koma vissulega dagar sem að eru erfiðari en aðrir og líkaminn er þreyttur. Þá hef ég lært að hlusta og hvíla.
Hvaða markmiði ætlarðu næst að ná?
Næstu markmið eru að komast í enn fleiri jóga stöður og hreyfa mig meira úti í guðs grænni náttúrunni .
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.