,,Cake pops‘‘, eða litlar kökukúlur, hjúpaðar súkkulaði og skreyttar á ýmsan máta, hafa átt miklum vinsældum að fagna í Bandaríkjunum og víðar síðastliðið ár og auðvitað hafa Íslendingar ekki látið þetta nýja æði framhjá sér fara.
Það er Angie Dudley sem heldur úti vinsælu bloggi um bakstur sem er upphafsmanneskja æðisins. Mér áskotnaðist fallega bókin hennar síðastliðið haust og þar segir hún frá tilurð ,,Cake pops‘‘ sem þýða mætti á okkar ástkæra sem kökupinnar, kökupopp, pinnakökur eða bitakökur!
Angie segist hafa þróað hugmyndina að pinnakökunum sem hafi síðan farið eins og eldur í sinu um veraldarvefinn. En þegar henni var boðið í sjónvarpsþátt Mörthu Stewart til að kenna Mörthu sjálfri að búa til pinnakökur þá hafi undrið gerst. Pinnakökurnar slógu algjörlega í gegn. Undanfarna mánuði hafa aðrir fetað í hennar fótspor og nokkrar fleiri bækur um kökupinna komið út.
Kökupinnagerðin krefst síður en svo lagni við bakstur. Hér reynir eingöngu á hugmyndaflug, þolinmæði og að fólk hafi ánægju af skreytingum og fínlegu dútli með súkkulaði og sykurskraut. Listrænir hæfileikar fá og notið sín til hins ýtrasta hjá þeim sem vilja ,,fara alla leið‘‘ í þessum efnum en grunnaðferðin er mjög einföld. Hefðbundin skúffukaka er brotin og mulin ofan í skál, smjörkremi (,,frosting‘‘ sem venjulega er sett ofan á skúffukökuna) er hrært saman við mulninginn og búnar eru til litlar kúlur úr öllu saman. Já, þetta hljómar einkennilega, en þetta er málið. Síðan eru kúlurnar kældar, hjúpaðar súkkulaði og skreyttar eins og hverjum og einum dettur í hug. Oft er pinnum stungið í kúlurnar og minna kökurnar þá óneitanlega á sleikipinna.
Í bókinni ,,Cake pops” eru svo kenndar margar aðferðir sem hægt er að spreyta sig á. Til dæmis að móta fleiri útfærslur úr deiginu en kúlur og þá eru gjarnan notuð konfekt- eða smákökuform til verksins. Er þá hægt að búa til lítil hjörtu, blóm eða hvað sem er. Sýnt er hvernig búa má til ýmsar fígúrur og form sem gaman er að bjóða upp á í veislum við hin ýmsu tilefni. Kökubitarnir skreyta hvaða veisluborð sem er og vekja athygli. Þeir eru æðislegir í brúðkaup sumarsins í bland við aðra sæta bita.
Ég bauð fyrst upp á kökupoppið góða í barnaafmæli fyrir nokkru og viðbrögðin voru vægast sagt góð! Enda hefur kökuppoppið ekki bara útlitið með sér, það er syndsamlega gott. Á bak við stökkan súkkulaðihjúpinn reynist dúnamjúk súkkulaðikökusæla. En bitinn er lítill, eða á stærð við góðan konfektmola, og því geta þeir aðhaldssömu látið einn slíkan nægja.
Aðferð og innihald:
- 1 skúffukaka, meðalstærð (oftast er notuð brún kaka en það er auðvitað bara smekksatriði)
- 200-300 g smjörkrem (frosting) – auðveldasta leiðin að kaupa tilbúið í dós
- súkkulaði til að hjúpunar, dökkt, hvítt eða annað sem þið komist yfir (en ekki reyna sjálf að lita hvítt súkkulaði!)
- alls kyns kökuskraut eða sælgæti
- pinnar til að stinga í kúlurnar, (fást helst í sælkerasérverslunum, einnig má nota stærri gerðina af kokteilpinnum úr plasti sem fást víða)
Eitthvað til að stinga pinnunum í, sbr. einangrunarplast sem hefur t.d. verið þakið fallegum pappír, í glös eða skálar sem fylltar hafa verið sykri, ávexti eins og melónur eða annað sem ykkur dettur í hug og pinnarnir festast í.
Látið skúffukökuna alveg kólna og myljið síðan ofan í skál. Hrærið smjörkremi saman við. Farið varlega af stað og notið frekar minna en meira af kreminu amk. til að byrja með, því ef of mikið krem er notað verður deigblandan of blaut til að móta úr henni kúlur. Mótið kúlur í hæfilegri stærð og kælið. Gott getur verið að stinga þeim inn í frysti í um 15 mínútur. Bræðið súkkulaðið sem á að nota. Ef ykkur finnst það ekki nógu þunnt til hjúpunar má þynna það með örlítilli grænmetisolíu, ½ -1 tsk.
Dýfið pinnanum aðeins í súkkulaðið og síðan í kökukúluna. Dýfið síðan kökukúlunni í súkkulaðið og látið renna vel af. Skreytið á þann hátt sem ykkur sýnist og stingið pinnanum niður þar sem hann stendur kyrr, sbr. lýsingu hér að ofan.
Kökukúlunum þarf alls ekki að stinga í pinna heldur er líka hægt að láta þær eftir súkkulaðihjúpun storkna á bakka með bökunarpappír og setja síðan á fallegan bakka eins og á mynd hér að ofan. Þær eru ekkert síður girnilegar og fallegar á borði.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.