Síðustu helgi fór ég í verslunarleiðangur með mömmu minni sem vildi kaupa sér e-ð fallegt fyrir haustið. Mamma er fullorðin kona með klassískan smekk og ég var ekki alveg viss hvert ég ætti að fara með hana. Við þræddum flestar verslanir Kringlunnar og Smáralindar en enduðum bæði tómhentar og vonsviknar.
Ástandið í verslunum er auðvitað ekki gott í dag, útsölur nýbúnar og haustvaran rétt að tínast inn en engu að síður þá voru þær haustvörur sem komnar voru bara svo hrikalega dýrar. Okkar slæma gengi er auðvitað þar um að kenna og ég veit að flestir verslunarmenn hafa lækkað framlegð sína umtalsvert í von um að geta þá selt þessa vöru sem er keypt á tvöföldu verði miðað við fyrir ári.
En hvað er þá til ráða fyrir konur sem ekki vilja eyða hálfu mánaðarkaupinu í eitt outfit? Mamma er allavega heppin því 40’s og 50’s tískan er komin aftur og hún þarf ekki annað en að kíkja innst i fataskápinn til að finna fallega flaueliskjóla, dragtir og pelsa. Tískan fer alltaf í hringi og því er um að gera að geyma það sem er vandað og vel gert á góðum stað inni í skáp. Það kemur alltaf allt aftur… fyrr eða síðar.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.