Ég er búin að bíða eftir föstudeginum alla vikuna. Það er alls ekki af því það er að koma helgi, ó nei (jú eða kannski smá).
Nei það er af því ég stal þessari frábæru hugmynd af góðri konu og ætla að gera hana að minni. Það er alltaf verið að segja að maður eigi ekki að vera að finna alltaf upp hjólið og þess vegna sé ég ekkert að því að stela fínum hugmyndum…
Fimmtán föstudagar og fimmtán kjólar
Ég hlakkaði nefnilega til dagsins í dag vegna þess að í dag er fyrsti föstudagurinn af fimmtán þar sem ég ætla að vera í nýjum kjól og skrifa um hann. Já eða sko ekki alveg nýjum, ég á þá til, eða alla vega nóg af þeim. En það sem ég meina er sem sagt, ekki sama kjólnum fimmtán föstudaga í röð. Af hverju fimmtán? Af hverju ekki sjö eða tuttugu og einn? Eða eitthvað annað?
Já sko, eftir 15 föstudaga er haustönnin búin og vonandi hef ég lifað hana af. Ég hef nefnilega dálítið mikið að gera og þess vegna ákvað ég að það væri góð hugmynd að bæta einhverju við dagskránna.
Þetta er leiðin til að gleyma engum
Mér finnst þetta með kjólinn alveg stórkostlega frábært. Ég er nefnilega hégómagjörn með afbrigðum og mjög mikil pjattrófa. Ég elska kjóla og pils og kjóla og meiri kjóla. Ég á enn uppáhaldskjóla sem ég gæti ekki troðið mér í þótt ég fengi væna summu fyrir en ég tími samt ekki að henda þeim. Núna á ég ótrúlega marga flotta og einhvern veginn enda ég alltaf í því að vera í þeim sömu og hinir gleymast. Þetta er leið til að gleyma engum.
Þetta er pínu svona eins og þegar ég var lítil og ætlaði að sofa með eina dúkku og ég tók alltaf allar því mér fannst svo leiðinlegt að hinum leiddist að fá ekki að sofa líka hjá mér.
Krúttlegur uppáhalds smástelpu pönkkjóll
Kjóll númer 1. – sem er hér frumsýndur þann 8. september 2017, er sérlegur uppáhalds kjóll. Krúttlegur, smá retro og næstum því pínulítið pönkaður. Ekkert mikið samt, bara smá. Eiginlega alveg eins og ég vil hafa kjóla.
Hann er líka stuttur, ekki samt of stuttur því ég er orðin svo gömul en samt stuttur.
Stuttar konur eins og ég verða nefnilega enn styttri ef síddin fer aðeins niður fyrir hné. Þetta er dagsatt. Krossa fingur og bið til Guðs, eða hvernig var þetta aftur?
Kjóll þessi er rúmlega ársgamall og var keyptur í einni af ferðum okkar Bjarndísar vinkonu minnar, þegar við förum í Kjól og Sushi en það gerum við tvisvar á ári.
Sú helgiathöfn gengur þannig fyrir sig að við förum við fyrst og kaupum okkur kjól, eða kjóla, ef við sjáum fleiri en einn. Þetta á að vísu bara við um mig, því Bjarndís er fædd undir merki vogarinnar og getur ekki tekið skyndiákvarðanir um svona mikilvæg málefni eins og kjólakaup.
Eftir að við höfum svo fundið réttu kjólana þá förum við Sushistað og fáum okkur að borða og til að halda upp á þessi frábæru kaup. Mjög skemmtilegt.
FÖSTUDAGSKJÓLLINN 8. september 2017
Keyptur í: Kjólar og konfekt
Verð: 4.900 kr á útsölu
Kjóll dagsins datt eiginlega í fangið á mér því mér fannst hann ekki fallegur, bara alls ekki. Eiginlega næstum því ljótur. Þetta hvíta á hálsinum og ermunum, æi hvað er það?
Svo sýndi ég Bjarndísi kjólinn og hún sagði „æði, keyptu hann”. Það varð ljóst á þessari stundu að vogareiginleikarnir eiga ekki við kjólakaupin mín. En ég keypti hann samt og fór með hann heim (eftir Sushiið). Þar hengdi ég hann upp og virti hann fyrir mér. Ég horfði. Horfði svo meira á hann og allt í einu kolféll ég fyrir honum. Lítill, sætur, krúttlegur kjóll og mér fannst ég dálítið krúttleg í honum… en það er sko alls ekki alltaf sem mér líður þannig.
Af hverju þessi kjóll í dag? Jú ég þarf að vinna í allan dag og síðan ætla ég í smá haustfagnað og þá er skemmtilegra að vera vel til hafður eins og móðir mín heitin sagði svo oft. Svo finnst mér það ekki skemma að henni fannst þessi kjóll mjög klæðilegur (henni fannst ekki allir kjólarnir mínir klæðilegir). Gamaldags skemmtilegt orðalag á vel við þennan föstudag 😉
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.