Kiosk hefur opnað á Laugavegi 33 (fyrir ofan Kroll sem áður var E-label verslunin).
Ég leit þar inn og skoðaði gersemarnar og spjallaði við Eygló sem var að störfum þann daginn. Búðin er vel heppnuð og fallega hönnuð, opið hvítt rými með speglavegg sem hönnuðurnir púsluðu saman úr brotnum speglum, aspir fyrir slárnar og ævintýraleg vegglistaverk, skúlptúrar og ljósmyndir.
Hönnuðurnir skiptast á að afgreiða í búðinni og taka öll mjög hlýlega á móti manni og vita allt um vörur hvors annars.
Þarna eru sko margar flíkurnar og fylgihlutirnir að finna sem ég myndi vilja eiga, mér finnst að þarna hafa komið saman afar fagmannlegur og hæfileikaríkur hópur hönnuða og það ættu allir áhugamenn um tísku og hönnun að gera sér ferð á Laugaveginn og líta þarna inn.
Taskan frá henni Eygló sem þið sjáið á myndunum hefur slegið í gegn, ég á eina slíka og er spurð oft á dag hvar ég hafi fengið hana, hún lítúr út eins og hálsmen eða borði úr leðri en er svo með silkivasa aftan á sem rúmar síma, kort og varalit. (nauðsynlegustu hlutir pjattrófu)
Það er enn verið að bíða eftir vörum eftir fleiri hönnuði en sjást á myndunum, en von er á þeim úr framleiðslu mjög bráðlega.
Myndirnar tók Margrét Pjattrófa
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.