Það skiptir ótrúlega miklu máli að nota réttu burstana þegar verið er að ná fram fallegri förðun!
Gott er að eiga nokkrar gerðir af förðunarburstum til að hægt sé að búa til flotta skyggingu á augun og svo að hún verði jöfn og fín. Hér ætla ég að segja frá mikilvægstu burstunum að mínu mati.
1. Flatur augnskuggabursti
Hann er notaður til að setja augnskugga á augnlokið, fyrir neðan augabrún og inn í augnkrók. Hann er flatur og rúnaður til að ná að setja augnskugga vel á augnlokið og svo að maður nái sem mestum lit úr augnskugganum. Best er að “dúmpa” augnskugganum á augnlokið til að ná sem mestu úr honum.
2. Blöndunarbursti
Mikilvægasti burstinn þegar kemur að augnförðun! Svona bursta þurfa allar konur að eiga. Hann er notaður til að blanda út augnskuggan í glóbuslínuna. Þegar búið er að setja dekkri lit í glóbuslínuna er blöndunarburstinn notaður til að blanda augnskuggan út svo hann verði jafn og svo það myndist ekki skarpar línur.
Mikilvægt er að blanda – blanda – blanda augnskuggan út, það er aldrei búið að blanda of mikið. Svo bætir maður bara aðeins við af augnskugganum ef hann dofnar of mikið út. Gott er að nota þennan bursta í að blanda fram og tilbaka í glóbuslínuna – fram og tilbaka.
Hægt er að kaupa svona bursta bæði í Mac og Inglot, einnig er hægt að kaupa burstasett frá Real Techniques þar er góður blöndurnarbursti í fjólubláa settinu.
3. “Smudge” bursti – eða dreyfa út bursti
Það er lítill bursti sem er mjög góður til að setja augnskugga undir augun. Hann er lítill með stuttum hárum sem ná að dreyfa úr augnskugganum. Hann er góður til að nota í smokey förðun, til að dreyfa augnblýantnum út.
4. Lítill augnskuggabursti
Hann er svipaður og “smudge” burstinn, hann er góður til að setja augnskugga undir augun og til að setja augnskugga á minni svæði eins og í augnkrókinn.
5. Glóbuslínubursti
Bursti sem er svipaður og blöndunarburstinn en nær betur inn í glóbuslínuna. Góður til að nota þegar maður vill ná fram fullkomri skyggingu.
6. Eyelinerbursti
Eyelinerbursti er nauðsynlegur þegar maður notar gel eyeliner eða cake eyeliner sem maður bleytir upp í með vatni. Hægt er að nota skáskorinn sem mér persónulega finnst mjög þæginlegt, þá er auðvelt að lengja hann út í ytri augnkrók. En svo er líka hægt að nota lítinn bursta sem er svipaður og blautir eyelinerar en bara burstinn. Hægt er að nota skáskorna burstann til að setja dökkan augnskugga meðfram augnháralínunni til að fá mjúka línu í staðin fyrir eyeliner.
Svanhildur Guðrún sporðdreki sem fæddist árið 1993, sama ár og Spice Girls urðu til. Hún er förðunarfræðingur, útskrifuð úr Reykjavik Makeup School með næst hæstu einkunn úr sínum bekk. Svanhildur hefur óþrjótandi áhuga á förðun og öllu sem henni við kemur, en líka á heilsu, hreyfingu, útivist og Friends. “Friends þáttur á dag kemur skapinu í lag,” er hennar mottó > facebook.com/svanhildurmakeup