Okkur finnst það flestum yndisleg tilfinning að vera með nýsnyrtar hendur og fallega lakkaðar neglur.
Hér eru nokkur skref sem gott er að fylgja þegar þú gerir handsnyrtingu og lakkar neglur:
1. Þvottur
Þvoðu þér vel um hendurnar með sápu og ef til vill skrúbbi. Ekki er gott að vera nýbúin í baði eða sturtu þar sem neglurnar geta verið rakar og linar eftir á.
2. Naglabönd
Berðu á þig naglabandaeyði og nuddaðu naglaböndin vel. Að því loknu er gott að ýta létt á þau með þar til gerðum pinna og ef þau hafa vaxið mikið fram þarf jafnvel að snyrta þau með klippum. Varaðu þig þó að klippa ekki svo þú finnir til.
3. Hreinsun
Sjáðu til þess að neglurnar séu lausar við alla fitu og naglabönd. Ef við lökkum yfir naglaböndin er hætt við því að lakkið brotni upp vegna húðfitu og hreyfingu á naglaböndum. Lakkið skal því aðeins snerta nöglina sjálfa.
4. Mótun
Mótið og jafnið neglurnar með naglaþjöl af grófleika 240 eða hærri. Því hærri sem talan er, því fínni er þjölin. Ekki er gott að nota grófar þjalir eins og af grófleika 80-180 á eigin neglur. Sá grófleiki er einna helst notaður á gel- eða akrýlneglur og getur farið illa með náttúrulegar neglur.
5. Undirlakk
Byrjaðu á að lakka eina þunna umferð með undirlakki (base-coat) og hristu glasið vel áður. Þetta er eitthvað sem alltaf er gott að gera fyrir lökkun til að lakkið sé vel blandað.
6. Lökkun
Lakkaðu nú með litnum sem þú hefur valið. Snyrtilegast er að pensla þunnu lagi og endurtaka það þegar fyrsta umferð hefur þornað alveg.
7. Yfirlakk
Endaðu svo á að lakka með með yfirlakki (top-coat) eina þunna umferð. Það að nota undir- og yfirlakk lætur lakkið endast lengur og gefur því enn fallegri áferð. Það er líka gott að lakka smávegis með yfirlakkinu fremst á nöglina og loka þar með hjúpnum sem lakkið er.
8. Voilà!
Þegar allt er orðið vel þurrt er dásamlegt að bera naglabandaolíu á naglabönd og njóta!
Hulda Jónsdóttir Tölgyes er 28 ára og úr Reykjavík.
Hulda hefur lokið tveimur háskólaprófum í sálfræði og stefnir ótrauð á að læra enn meira innan þess sviðs á næstu árum.
Hún er jafnframt lærður naglafræðingur úr MOOD skólanum og einn af stofnendum poppkórsins Vocal Project.
Hulda er hundafrík sem naglalakkar stundum tíkina sína!