Ég á í stöðugu stríði við hárið á mér. Ekki nóg með það að þetta bévítans hár sé snarkrullað og almennt óþolandi þá skarta ég líka sveipum á stórundarlegum stöðum. Sem geta gert mér lífið mjög erfitt þegar ég reyni að gera eitthvað fallegt við hausinn á mér.
Um síðustu jól fann ég undursamlega lausn á þessu vandamáli. Eina sem maður þarf er hárband og hárlakk.
Þessi greiðsla gæti ekki verið einfaldari. Fallegt hárband sett yfir höfuðið. Lausa hárið að aftan tekið og sett ofan í bandið þangað til það helst fast.
Fáeinir lítrar af hárlakki og maður er klár í hvað sem er!
Ég á því miður enga góða mynd af því þegar ég gerði þetta í hárið á mér. Það sést nú samt aðeins á þessari mynd af okkur syni mínum hér að ofan. Ég hafði enga lokka lausa að framan heldur tróð öllu hárinu ofan í hárbandið. Svona til að vera aðeins settlegri í útliti – það má ekki vera druslulegur á jólunum.
Þessi greiðsla tók mig ekki meira en tvær mínútur. Það er fjári góður tími þegar ég og hausinn á mér erum annars vegar.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.