Eftir að snjallsímar komu til sögunnar hefur það aukist verulega að fólk taki myndir og pósti þeim á vefmiðla eins og Facebook, og bloggið sitt, sendir myndirnar í tölvupósti eða birti þær í digital myndarömmum.
Ég var að vafra um á Netinu þegar ég rambaði á síðu hjá Kodak sem gefur lesendum 10 góð ráð til að verða betri ljósmyndarar og er vert að skoða þessi atriði ef maður vill bæta sig í myndatökunni.
1. Taktu myndir í augnhæð
Þegar þú ert að taka myndir af barni eða t.d. gæludýri beygðu þig niður og taktu myndina þannig að augun þeirra sjáist. Þau þurfa ekki að horfa beint í myndavélina, en það er ótrúlegt hvað það gerir fyrir myndina að taka hana í augnhæð en t.d. ofan frá.
2. Veldu einfaldan bakgrunn
Áður en þú smellir af, skoðaðu hvað er bakvið myndefnið, en þú vilt ekki að bakgrunnurinn steli athyglinni frá aðal myndefninu.
3. Notaðu flassið í útimyndatökum
Þú heldur kannski að það eigi ekki að nota flassið úti ? Prófaðu næst að hafa það á, það er ótrúlegt hvað það gerir fyrir myndina. Andlit verða t.d. bjartari og þau fanga athyglina í staðinn fyrir að hverfa í bakgrunninn.
4.Færðu þig nær
Ef þú vilt taka áhrifamiklar myndir þá er gott ráð að fara nær myndefninu. Færðu þig aðeins nær að því sem þú ert að fara taka mynd af þannig að myndefnið fyllir út í rammann á myndavélinni. Með því að gera þetta útilokar þú bakgrunn sem er truflandi og sýnir um leið smáatriðin. Ef þú ert að taka myndir af litlum hlutum, notaðu macro stillinguna eða flower stillinguna til að fá meiri skerpu.
5.Taktu lóðréttar myndir
Margt myndefni lítur miklu betur út ef það er lóðrétt en lárétt, þannig að það er alveg þess virði að prófa að snúa myndavélinni og athuga hvernig myndin lítur þannig út.
6. Læstu fókusinn
Til að ná fram skerpu í myndum er gott að læsa fókusnum.
1. Láttu myndefnið vera í miðjunni
2. Ýttu lauslega á ljósloksopann (e. shutter button) (hnappurinn sem þú ýtir á til að taka myndirnar), þannig að myndavélin finnur réttan fókus.
3. Endurstilltu myndavélina (og haltu niður ljósloksopanum)
4. Kláraðu myndatökuna með því að smella af .
7. Færðu þig frá miðjunni
Með því að færa þig frá miðjunni færir þú lífi í myndirnar þínar. Margar myndavélar bjóða upp á að sýna ramma á skjánum en prófaðu að stilla á þann möguleika og staðsetja myndaefnið í skurðpunkti á línunum. Mundu að nota aðferð sex til að læsa fókusnum.
8. Þekktu hversu langt flassið dregur
Ef þú tekur myndir með flassi og myndefnið er of langt í burtu þá verða myndirnar of dökkar. Flest allar myndavélar eru með flass sem dregur þrjá metra eða fjögur skref. Kíktu í bæklinginn til að athuga hversu langt flassið nær.
Ef myndefnið er lengra í burtu en fjögur skref eða þrír metrar mun myndin verða of dökk.
9. Fylgstu með ljósinu
Þetta er svona America’s Next Top Model ráð, en ég er svolítill sökker fyrir þeim þáttum og maður hefur OFT heyrt dómarana segja við módelin að þeir eigi að fylgjast með hvaðan ljósið kemur. Lýsingin er það sem gerir myndirnar góðar og er mikilvægt að gefa sér tíma til að æfa sig að taka myndir í allskonar lýsingu.
Þegar þú ert að taka myndir af fólki viltu hafa mjúka lýsingu og litla skugga, en þegar þú ert að taka myndir af landslagi viltu fá skerpu. Gerðu tilraunir með ljósið heima í stofu og æfðu þig að taka myndir með flassi. Það margborgar sig.
10. Stjórnaðu myndatökunni
Taktu þér smá tíma og stjórnaðu myndatökunni. Láttu fólk raða sér upp, skoðaðu sjónarhornið, þjappaðu myndefninu saman og láttu einstaklinginn njóta sín. Ekki vera feimin þegar þú ert að taka myndir.
Myndir voru fengnar að láni frá Kodak
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.