Karma fyrir fugla er nýtt leikrit, frumraun þeirra Kristínar Eiríksdóttur og Kari Ósk Grétudóttur sem leikskálda en þær eru myndlistamenntaðar.
Áður hefur Kristín m.a. gefið út ljóðabækur og skáldsöguna Hvítfeld (sem hefur fengið góða dóma). Þessar ungu konur skrifa hér magnaðan texta.
Það má segja að verkið sé mjög hugrakkt, það er afar beitt og tekist er á við erfið málefni, en textinn er ekki aðeins þungur heldur hefur einnig til að bera húmor.
Texti leikverksins er ekki mjög línulegur eða rökrettur sem slíkur – þá á ég þó ekki við að hann sé óskiljanlegur, hann er bara brotakenndur og saman mynda brotin heild. Í raun og veru má tala um þetta sem “kvenlægan texta” lausan við “karlæga rökhyggjuáráttu” (ef svo má kveða að orði) enda er hér um að ræða feminískt verk.
Það má segja sem svo að verkið fjalli um það hvernig heimurinn sem við búum í ali upp konur og verkið ber þess mismunandi merki fyrir og eftir hlé.
Mismunandi aðstæður víða um heim
Í fyrri hluta verksins er fókus settur á fjölskylduna, þar sem sýnt er fram á hvernig foreldrar ala upp börnin sín í gamalli hugmyndafræði, sem er hugmyndafræði feðraveldisins.
Það er að segja, bent er á öll þessi munstur sem stúlkur alast upp í hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað hjá foreldrunum. Mörgum stúlkum er í raun og veru kennt að það sé mikilvægast að vera sætar og svo að hlýða. Þessi hluti leikverksins virkar eins og saga sem fjallar um Elsu (aðalpersónu verksins).
Þetta sýnir hvernig búið er að ringla og rugla konuna. Búið er að kenna konunni að vera undirgefin og hún er alltaf að biðjast afsökunnar og taka ábyrgð á einhverju sem er ekki henni að kenna. Senan er afar áhrifarík og hefur setið í mér síðan.
Í seinni hluta verksins er fókusinn settur á hið stærra samhengi hlutanna, þar finnst mér vera sýnt fram á að það er samasem merki á milli uppeldis á konum í vesturheimi (þar sem best er að vera sæt og hlýða) og svo aftur því hvernig komið er fyrir konum í öðrum hluta heimsins. Hér sé um að ræða mismunandi “fangelsi” kvenna. Þá er komið inn á mansal og Elsa verður myndlíking fyrir konur víða um heim í mismunandi aðstæðum.
Ósýnileg en áþreifanleg kúgun
Í verkinu er farið á flakk um heiminn og jafnvel tímaflakk þar sem sýnt er hve konan er berskjölduð í hröðum heimi. Þ.e.a.s. þessi partur verksins rímar við fyrri partinn: en víða er bara um að ræða annarskonar “fangelsi” – en fangelsið sem hér er talað um er í raun og veru aðeins tilkomið vegna kúgunnar á konum, sem er staðreynd enn í dag.
Það er sama hvar við erum í heiminum – þá má því miður allstaðar finna illsku. Hér í þessu verki er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, hér er tekist á við að sýna fram á stöðu konunnar í fortíð og nútíð. Sýnt er fram á það hve kvennasagan er í raun og veru mikil kúgunarsaga. Vissulega þarf stundum hugrekki til að horfa á slík verk en Karma fyrir fugla er líka sjónarspil og ekki laust við húmor til þess að fleyta áhorfendum yfir erfiða hjalla. Það er sannarlega þess virði að upplifa. Leikmynd og búningar eru í höndum Önnu Rúnar Tryggvadóttur en henni tekst s.s. afar vel upp.
Konur þurfa á hugrekki að halda
Mér finnst ég varla geta fjallað um Karma fyrir fugla án þess að koma stuttlega inn á áhrifaríka senu (ég skal ekki lýsa senunni til þess að eyðileggja ekki fyrir þeim sem enn eiga eftir að sjá sýninguna) – en senan felur í sér heimilisofbeldi. Þar sést hvernig konan hefur ýmis verkfæri til þess að komast út úr aðstæðum en kann ekki að nota þau.
Þetta sýnir hvernig búið er að ringla og rugla konuna. Búið er að kenna konunni að vera undirgefin og hún er alltaf að biðjast afsökunnar og taka ábyrgð á einhverju sem er ekki henni að kenna. Senan er afar áhrifarík og hefur setið í mér síðan.
Ég hugsa um öll þau tækifæri sem konur sólunda af innprentuðum ótta – það er ekki frelsi. Konur þurfa á hugrekki að halda í þessum harða heimi.
Það er ringlandi að vera kona
Ef fólk skilur ekki feminisma eða kvenréttindabaráttu þá má segja að það sé góð byrjun að fara á Karma fyrir fugla til þess að sjá um hvað hugmyndafræðin fjallar.
Fjallað er um baráttu kvenna gegn illsku og ofbeldi gegn konum í þessum heimi. Ofbeldi sem brýst út á mismunandi hátt, ofbeldi sem ber að stöðva, ofbeldi sem illska lætur viðgangast. Karma fyrir fugla kemur hugmyndum í gegn þrátt fyrir að vera á tíðum ringlandi verk.
Það á ekki að koma að sök – því það ER ringlandi að vera kona í þessum heimi. Eins ER kvenlægur hugsanagangur ekki eins og karllægur hugsanagangur og því er verkið skrifað með hinu kvænlæga óræða viðhorfi. Sýningin segir stundum söguna meira með myndum en texta, eða má segja að textinn sé myndrænn?
Elsurnar þrjár
Í verkinu eru þrjár aðalkvenpersónur sem allar eru Elsa. Elsa sem leikin er af Þórunni Örnu Kristjánsdóttur er hin saklausa stúlka sem fær röng skilaboð um sjálfa sig sem konu og kynveru. Sögumaður verksins, leikin af Kristbjörgu Kjeld, er einnig Elsa. Hún segir áhorfendum frá og leiðir þá í gegnum verkið, hún sýnir áhorfendum hvernig eitt leiðir af öðru og veldur því að Elsa á sér ekki mikla von. Sumt getur hún sýnt okkur en getur þó ekki horfst í augu við það sjálf.
Ætli það sé ein þeirra ástæðna að konur festast stundum í erfiðum hlutverkum í lífinu? Vegna þess að þær geta ekki horfst í augu við veruleikann? Svo er það Dæja, sem ég túlkaði að væri líka Elsa sjálf. Hún er leikin af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur.
Sá karakter hefur brynjað sig með því að verða “sadó-masó” en í því felst styrkur hennar. Þetta eru aðalpersónurnar (aðalpersónan) og ég bara verð að segja að þessar leikkonur sýna þvílíkan stjörnuleik allar!
Sérstaklega vil ég hrósa Þórunni Örnu Kristjánsdóttur sem mér finnst vera stjarna sýningarinnar, loksins fær þessi virkilega hæfileikaríka leikkona hlutverk sem gerir henni fært að sýna hvað í henni býr… Hreint út sagt stórkostlega vel gert hjá henni!
Maríanna Clara Lúthersdóttir fer með hlutverk móðurinnar. Það sem stingur mann helst er að hún er nútímakona sem hefur valið sér ósjálfsstæði og lifir í einskonar lygi. Þarna stendur Maríanna Clara sig afar vel og kemur á óvart í hlutverki sínu.
Ég trúði henni fullkomnlega og skildi hana líka að vissu leiti… (sorglegt að átta sig á því). Þarna var sýnt fram á það að konur hjálpa sjálfar til við að viðhalda gamaldags hugmyndum. Karakter móðurinnar var líka mjög fyndinn. Í raun og veru gat maður hlegið að flestum þeim karakterum sem táknuðu gamaldags hugmyndir (feðraveldið). Það var afar kærkomið.
Þorsteinn Bachmann fór t.d. á kostum sem lúðalegur faðir Elsu. Hilmir Jensson lék ungan mann á uppleið og brá sér svo einnig í dólgshlutverk.
Hann var afar sannfærandi í báðum þessum hlutverkum. Mér varð reyndar um og ó, þegar hann birtist sem dólgur. Að síðustu er Herdís Þorvaldsdóttir í hlutverki uppljómaðrar búddanunnu. Hún geislar af fegurð og hreinleika í hlutverki sínu. Leikur var allur til fyrirmyndar í Karma fyrir fugla!
Karma fyrir fugla er verk um konur, skrifað af konum, leikið að mestu af konum, leikmynd og búningar í höndum konu og því er leikstýrt af konu. Það er Kristín Jóhannesdóttir sem leikstýrir. Hún skilur greinilega vel og nær að miðla hvernig myndrænn leiktextinn virkar (m.a. vegna þess að hún er kona sjálf?).
Það er síður en svo (eins og heyrt hefur verið fleygt af gagnrýnanda) að höfundarnir kunni ekki að gera leiktexta. Sá sem þetta segir hefur sjálfur ábyggilega takmarkaðan skilning á kvenlægum vinnubrögðum í textagerð og er væntanlega einnig gamaldags í sínum þankagangi á fleiri en einu sviði.
Ég fagna þessu nýja leikverki, þessum nýju höfundum og þessu frábæra framtaki Þjóðleikhússins. Ég hvet lesendur Pjattrófanna til þess að skella sér á þessa sýningu – hvaða kona sem vill fagna því að vera kona hefur ekki áhuga á að sjá slíkt verk?!!
Aðstandendur sýningarinnar eru sem hér segir:
Handrit: Kristín Eiríksdóttir og Kari Ósk Grétudóttir. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd og búningar: Anna Rún Tryggvadóttir. Tónlist: Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Helgi Þórsson og Steinunn Harðardóttir. Hljóðmynd: Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Halldór Snær Bjarnason, Helgi Þórsson og Steinunn Harðardóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Aðstoðarmaður leikstjóra: Halldór Halldórsson. Leikarar: Kristbjörg Kjeld, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Þorsteinn Bachmann, Hilmir Jensson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Herdís Þorvaldsdóttir.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.