Dress for success!
Það er staðreynd að hvernig þú klæðir þig skiptir máli. Það skiptir hitt kynið máli hvernig þú ert til fara, það skiptir máli að þú klæðir þig rétt fyrir vinnuna og það skiptir máli hvernig þú klæðir þig ef þú ert að sækja um vinnu.
Ég veit um vel menntaðan og reynsluríkan mann sem er að sækja um vinnu sem hann er fullkominn í, að öllu leyti nema klæðnaðinum. Hann hefur ekki skynbragð á því hvernig maður á að klæða sig, hann veit ekki hvað passar saman og finnst ekkert að því að vera í krumpaðri skyrtu og sjúskuðum strigaskóm, samt er hann með tvær háskólagráður að sækja um stjórnunarstöðu hjá ríkinu.
Sama hvað fólk segir þá getur það átt herslumuninn í atvinnuviðtölum og á stefnumótum að þú sért vel til hafður og kannt þig.
1. Vertu snyrtilegur, hreinn og vel klipptur.
- Vel rakaður eða með snyrt skegg
- Ekki gleyma augabrúnum, nasahárum og eyrnahárum, snyrtu það, það á ekki að stingast út hár á vitlausum stöðum
- Hrein húð, notaðu rakakrem
- Klipptu neglur og hreinsaðu undan þeim, handaáburður er líka fyrir karlmenn.
- Hreint hár og snyrtilegt, góð klipping.
- Notaðu svitalyktareyði og rakspíra en ekki of mikið af honum, hann á bara að finnast ef maður kemur vel upp að karlmanni ekki í meters fjarlægð.
2. Klæddu þig rétt miðað við tilefnið
- Passaðu að fötin séu hrein og ókrumpuð
- Fötin eiga að passa þér, ekki vera of lítil, of stór, of þröng eða víð. (ótrúlegt hvað margir eiga erfitt með þetta eina atriði)
- Ef þú sækir um vinnu sem krefst snyrtilegs klæðnaðar er ekki góð hugmynd að fara í fermingarjakkafötin eða fá föt lánuð sem passa þér ekki.
- Athugaðu að skyrtur séu ekki gegnsæjar, að sjá bringuhár og geirvörtur í gegnum skyrtuna er mjög hallærislegt.
- Ekki klæðast gömlum sjúskuðum bolum með margþvegnum auglýsingalógóum nema þú sért að fara leggjast undir skítugan bíl.
- Ekki klæðast buxum sem sýna rassaskoruna þegar þú beygir þig niður.
- Ekki klæðast meira en þrem litum í einu nema þig langi til að vera flippaður
- Ekki klæðast ónýtum skóm, það á við um skó sem eru ekki lengur í litnum sem þú keyptir þá í, eru götóttir eða með fastri táfýlun sem kemur af þér í hvert skipti og þú ferð í þá.
- Ekki klæðast hvítum sportsokkum nema þú sért á leið í tennis. Það er öruggast að halda sig við svarta sokka, finndu tegund sem hentar þér og þá er líka auðveldara að para sokka saman eftir þvott.
- Hafðu sokkana nógu háa til að ekki sjáist undan buxunum í loðna leggina ef þú krossleggur fæturna.
Þetta eru bara örfá atriði sem ég mundi eftir við smá umhugsun. Ef þér finnst erfitt að finna föt geturðu leitað í fyrirmyndir. Ef það er einhver sem þú þekkir sem þér finnst flottur í tauinu og þá getur þú athugað hvar viðkomandi verslar eða jafnvel hvort hann vilji hjálpa þér að versla.
Afgreiðslufólk í verslunum er misgott að finna það sem hentar hverjum og einum en farðu í verslun þar sem þér finnst fólk eins og þú vilt vera til fara og biddu um aðstoð, segðu afgreiðslufólkinu við hvaða tilefni þú ert að fara nota fötin og vonandi hittir þú á rétta aðila.
Það er líka hægt að ráða persónulegan stílista sem fer yfir fataskápinn með þér, hendir út eða parar saman það sem er nothæft og fer með þér að versla. Sú besta í þessu fagi sem ég þekki er Díana Bjarnadóttir, reynslubolti úr verslunum Gucci, Armani, GK og Selected. Hún getur dressað þig upp og fundið það sem þig vantar innan þess peningaramma sem þú hefur. Hægt er að hafa samband við hana í netfangið bjarnardiana@gmail.com
Að lokum vil ég vitna í meistara Tom Ford:
Þú ættir alltaf að sýna þínar bestu hliðar, hvað varðar klæðaburð og framkomu. Með því ertu að sýna umheiminum og fólkinu í honum virðingu.
_____________________________________________________
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.