Elsku strákar, bara smá áminning
Nú um helgina Valentínusardagur og konudagurinn verður um þá næstu þannig að ef þú vilt skora nokkur stig og gleðja konuna í þínu lífi þá koma hér nokkur ráð.
Mörgum kann að þykja Valentínusar og konudagurinn hallærislegir dagar sem blómabændur og skartgripaframleiðeindur fundu uppá til að fá ykkur til að eyða peningum og það má líka vel vera.
Það er óþarfi að halda upp á báða dagana en annar er skylda -og sama hvað þið haldið að þið séuð duglegir að koma konunni á óvart veit ég eiginlega ekki um eina einustu konu sem segir manninn sinn standa sig vel á þessu sviði.
En konur fíla konudaginn!
Konum finnst gaman að fá blóm (þó ykkur finnist það ekki), konum finnst gaman að láta koma sér á óvart, fá gjafir hverskonar og láta bjóða sér út að borða eða elda heima… aðalmálið er að hún sjái að þú hafir lagt e-ð á þig til að gleðja.
Klassískar ástargjafir
1. Nærföt
Ef þú vilt gefa henni nærföt þá er bara að fara í nærfataskúffuna, skrifa niður stærðina, fara í næstu nærfataverslun og biðja konurnar þar um aðstoð. Reyndu að ímynda þér hvað hún myndi vilja: sexí corselett eða saklausara útlítandi blómamynstrað sett? Finndu eitthvað sem hún yrði glöð með.
2. Ilmvatn eða föt
Ef þú hefur ekki tekið eftir neinu sérstöku og ert alveg uppiskroppa með hugmyndir þá er leyfilegt að hringja í bestu vinkonuna og spyrja hana. Hún ætti að geta gefið þér ráð og þagað yfir því að þú hafir spurt.
3. Dýrt en ógleymanlegt
Ef þú hefur verið sérstaklega latur við að gleðja konu þína og vilt eyða aðeins meiru til að gleðja hana þá er um að gera að panta óvænta helgarferð eða næturgistingu á hóteli með mat.
Það eru allskonar góð tilboð í gangi á þessum tíma á hótelum úti á landi og um að gera að nýta sér það.
Skart slær oftast i gegn, en vertu þá viss um að vita hvaða smekk hún hefur.
Mörgum konum finnst skart ofmetið, sérstaklega ef þær hafa fengið mikið af því og ég hitti til dæmis nokkrar harðgiftar konur sem myndu frekar vilja fá fallegt og innilegt ástarbréf frá manninum sínum heldur en enn einn skartgripinn.
4.Ókeypis glaðningur
Ástarbréf kostar ekkert nema “fyrirhöfnina” og vel skrifað og innilegt ástarbréf lifir lengur i minningunni en flestir veraldlegir hlutir. Einnig má endurvekja stemmningu sem minnir ykkur bæði á góða tíma, taka saman lagalista með lögunum “ykkar”, elda góðan mat eða fara í ísbíltúr, gera eitthvað eða fara eitthvert sem minnir ykkur á tímann þegar þið voruð ný orðin ástfangin.
Svo er svo margt annað hægt að gera… færa henni blóm og nýbakað rúnstykki morgunmat, bjóða í bíó eða leikhús á eitthvað sem þú veist að hún vill sjá, það er af mörgu að taka en umfram allt verður þú að sýna að þú lagðir þig fram við að gleðja hana, þá á þér ekki að geta mistekist, gangi þér vel.
P.S. Konur, þið megið gjarna kommenta og koma með ykkar hugmyndir eða segja frá reynslu ykkar af konudeginum 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.