Amerískir karlar eru alveg í rusli ef marka má félagsfræðinginn Cliff Hillard en nú neyðast þeir til að sætta sig við að sjá sífellt fleiri myndir af venjulegum konum í auglýsingum.
„Æ fleiri karlar upplifa áreiti af ófótósjoppuðum myndum þar sem venjulegar konur með allskonar gerðir líkama dynja á þeim. Þeir upplifa andlegt álag af því að þurfa að endurskoða fegurðarmat sitt frá grunni,” segir Hillard sem rannsakar fegurðarstandarda í fjölmiðlum og hvernig karlar geta mótað sér sínar eigin hugmyndir um hvernig æskilegt sé að konur eigi að líta út.
„Þetta er mjög erfitt og dregur úr mönnum,” segir fræðingurinn. „Í stað þess að sjá aðeins fisléttar fyrirsætur neyðast þeir til að horfa á konur sem eru með hlutföll þau er minna á raunverulegar konur.”
„Hugsið ykkur hvernig venjulegum manni líður nú þegar hann flettir í gegnum tímarit og sér myndir af konum sem ekkert er búið að breyta. Ekkert hefur verið átt við kinnbeinin eða nefið í Photoshop. Hvernig á manni að líða þegar hann sér svoleiðis?!” spyr félagsfræðingurinn agndofa og fer yfir niðurstöður úr rannsókn sem hann gerði.
„87 prósent karla segjast hafa séð auglýsingu sem lét þeim líða minni máttar þar sem auglýsingin hafði áhrif á hvernig þeir sjálfir upplifa kvenlega fegurð. Í þessum hópi voru 74 prósent sem sögðust hafa séð fyrirsætu án farða og 83 sögðust hafa séð bólur á fyrirsætunum. 62 prósent sögðust hafa séð fyrirsætur með svolitlar hrukkur í kringum augun. Hrukkur sem hefði verið mjög auðvelt að fjarlægja með aðgerð eða fótósjopp.”
Hillard veltir því fyrir sér hvaða áhrif það hefur á karla að vera neyddir til að sætta sig við venjulegar konur í auglýsingum.
„Hér erum við með heila kynslóð af drengjum sem munu alast upp við að sjá ófótósjoppaðar myndir af konum. Með útlitsgalla hér og útlitsgalla þar. Galla allstaðar! Hvað eiga þessir drengir að halda?” sagði Hillard sem tók jafnframt eftir því að 12 ára sonur hans er rétt núna að byrja að hlutgera konur og að viðmiðin í dag gætu komið til með að gereyðileggja það sem hann álítur vera hið fullkomna útlit fyrir konur þegar fram líða stundir.
„Það er út af þessu sem við verðum að styrkja strákana okkar og kenna þeim að leiða þessar myndir og auglýsingar hjá sér. Við karlar höfum nefninlega rétt á halda fast í hugmyndir okkar um hvernig konur eigi að líta út.”
Sem betur fer er greinin bara skrifuð í gríni og þessi rannsókn hefur aldrei verið gerð en það eru sprelligosarnir hjá The Onion sem létu sér detta þetta í hug. Hresst lið! 😀
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.