Karl Pétur Jónsson er fimm barna faðir á Seltjarnarnesi. Hann starfar sjálfstætt við almannatengsl og framleiðslu á afþreyingarefni og barnafötum með eiginkonu sinni Tinnu Ólafsdóttur hjá Ígló & Indí.
Hann er hvatvís og tekur sér stundum langan tíma í að koma hlutum í framkvæmd en segir að markmiðin náist þó yfirleitt alltaf. Hann hlakkar mikið til að fá konuna sína heim frá útlöndum og segist myndu breyta skólakerfinu á Íslandi ef hann gæti. Hann trúir því líka að konur séu talsvert betri að plotta en karlar.
Hvernig finnst þér best að byrja daginn?
Með kaffibolla og léttu hjali við hina fastagestina á Kaffifélaginu.
Hvernig bregstu við stressi?
Ég verð mjög sjaldan stressaður, en þegar það gerist finnst mér best að fá mér “power-nap”, annað hvort fram á skrifborðið eða í til þess gerðum Lazy-Boy á skrifstofunni minni.
Ef Ísland gæti stært sig af bestu opinberu skólunum í heimi, myndi samkeppnisstaða samfélagsins batna og “brain drain” sem við upplifum nú minnka til muna.
Ertu skipulögð manneskja?
Nei, ég er fremur hvatvís og mjög forvitinn. Þegar ég hef skipulagt mig er mjög líklegt að þessir tveir persónuleikabrestir mínir brjóti upp skipulagið. Hinsvegar næ ég yfirleitt þeim markmiðum sem ég set mér á endanum. Stundum hefur það þó tekið nokkurn tíma, ég hóf til dæmis stjórnmálafræðinám árið 1991, en lauk því ekki fyrr en 2003.
Leiðinlegasta vinna sem þú hefur unnið?
Ég man varla til þess að hafa unnið leiðinlega vinnu. Öll vinna er skemmtileg sé hún unnin af kappi. Einhæfasta vinna sem ég hef unnið er þó líklega í verksmiðju Vífilfells árið 1986, þegar ég stóð í eina viku og dró kassa með tómum kókglerjum af einu færibandi yfir á annað.
Það skemmtilegasta við starfið þitt í dag?
Þessi misserin stend ég í mjög skapandi ferli á þrennum vígstöðvum. Ég hef tækifæri til að hafa áhrif á gang mála hjá barnafatafyrirtækinu Ígló&Indí, þar sem eiginkona mín er framkvæmdastjóri og við eigum að hluta; ég er að framleiða gamanþætti fyrir sjónvarp og söngleik sem settur verður upp í erlendri stórborg. Það er varla neitt leiðinlegt við þessi verkefni, endalaust samstarf við skapandi og skemmtilegt fólk.
Hvað gerirðu til að halda geðheilsunni góðri?
Ég reyni að lifa fremur reglulegu lífi, sofa vel, borða vel og halda mig við jákvæðar hugsanir. Móðir mín kenndi mér barnungum að sjá fremur hið góða í fólki og aðstæðum en hið slæma og mér hefur tekist bærilega að halda mér við það.
Uppáhalds lagið 2013?
Glaðasti hundur í heimi. Aðallega vegna þess hvað ég hef glaðst mikið með hundinum þegar börnin mín dansa við lagið á stofugólfinu heima.
Hvað skilurðu ekki við hitt kynið?
Konur eru náttúrlega ólíkar eins og þær eru margar. Ég er að mestu alinn upp af konum; móður og tveimur eldri systrum og komst snemma í hendur eiginkonu minnar sem hefur gert sitt besta til að halda uppeldinu áfram. Þá á ég þrjár dætur. Ég sé ekki á þessum sjö konum í lífi mínu marga eiginleika sem eru þeim sameiginlegir, nema að þær eru allar sérlega góðar manneskjur sem ég elska mjög heitt. Þar fyrir utan mætti þó nefna að konur virðast að jafnaði hafa meiri hæfileika til plotts en karlar.
Hefurðu gert hamborgara frá grunni?
Já. Þeir voru nú ekkert til að monta sig af.
Besti veitingastaður sem þú hefur komið á?
Nikkei 225 í Madrid. Perúískur staður undir miklum japönskum áhrifum. Japerúísk matargerð mun sigra heiminn á næstunni.
Kaffi með mjólk eða svart?
Uppáhelling með smá mjólkurlús eða tvöfaldan latte.
Ef þú værir borgarstjóri í viku og fengir 200 milljarða til ráðstöfunar, – hverju myndirðu breyta fyrst?
Ég myndi byrja á því að bylta skólakerfinu. Börn nú til dags eru svo miklu klárari en við vorum á sama aldri en eru í grundvallaratriðum að læra sömu hlutina með sama hætti. Nokkrir ungir vinir mínir eru í góðum alþjóðlegum skólum í Brussel og Lúxemborg og mér þykir mikið til þess koma hversu góða menntun þessi börn eru að fá samanborið við það sem þykir í skólum hérlendis. Sennilega myndi þó vikan ekki duga til, en álitlegur afgangur væri af peningunum, því breyting á skólakerfinu þarf ekki að kosta pening, heldur þarf hugarfarsbreytingu hjá sveitarstjórnarfólki, skólastjórnendum, foreldrum og kennurum til að ná miklu meiri árangri en við náum í dag.
Ef Ísland gæti stært sig af bestu opinberu skólunum í heimi, myndi samkeppnisstaða samfélagsins batna og “brain drain” sem við upplifum nú minnka til muna.
Næsta stóra tilhlökkunarefnið?
Að fá eiginkonu mína heim frá útlöndum, að hluta til vegna þess að við börnin söknum hennar, að stærstum hluta vegna þess að ég er gjörsamlega búinn á því eftir að vera einn með börnin í þrjá daga (sem eiginkona mín gerði nánast allt árið 2011).
Eitthvað að lokum?
Áfram Ísland!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.