Við Emma og Eva dressuðum okkur upp og skelltum okkur svo á búrlesk sýningu í Þjóðleikhúskjallaranum um þarsíðustu helgi en fram til jóla verða sýningarnar haldnar öll föstudagskvöld og byrja klukkan 22:00. Fullkomið eftir góðan dinner og fyrir djamm.
Sýningin var kölluð „mótefnasprauta við stöðnuðu leikhúsi“ í pistli eftir Nínu Hjálmarsdóttur á RÚV og því var ekki annað í stöðunni hjá okkur menningarvitunum en að drífa okkur á staðinn.
Við komum okkur fyrir við kringlótt borð í miðjum sal og sátum frekar þétt með öðrum gestum sem var bara gaman en annars er miðað við fjóra gesti við hvert borð. (Ef þið eruð fleiri þá má samt troðast því salurinn er svo lítill að það sjá allir vel).
Fyrstar á svið voru skipuleggjendur kvöldsins, þær Margrét Erla Maack og Maísól. Þær tóku karaoke lag með ABBA af mikilli innlifun og þegar lagið var búið útskýrði Margrét, eða Mokki (listamannsnafnið) að framundan væri allsherjar karaoke kvöld þar sem gestir gætu valið sér lag og svo myndu meðlimir búrlesk gengisins stíga á stokk og performera atriði meðan lagið væri sungið. Hugmyndina fékk Magga meðan hún var í fæðingarorlofi og mér finnst óhætt að segja að þetta sé með betri hugmyndum að skemmtikvöldi sem ég hef vitað um. Með þessu tóku áhorfendur fullan þátt í flestum atriðum sýningarinnar sem skapaði frábæra stemmningu meðal gesta (sem margir voru tipsy og afar kátir) í salnum. Hvað er fyndnara en að horfa á vin sinn eða vinkonu taka karaoke lag meðan strippari eða hönk á einhjóli skýst þvers og kruss yfir sviðið? Ekki margt verð ég að segja.
Sýningin byrjaði með góðu blasti á laginu I need a hero með Bonnie Tyler en það var hinn undurfagri Tom Harlow, búrlesk stjarna frá Skotlandi, sem steig heillandi strippdans við flutning Grímu sem söng ansi vel líkt og flestir aðrir sem stigu þarna á stokk. Annars er jú ekkert atriði hvort fólk syngur vel eða ekki í karaoke því karaoke snýst fyrst og fremst um innlifun flytjandans. Því meiri innlifun, því betra.
Á eftir fylgdu svo hvert frábæra og fyndna atriðið á fætur öðru. Sum frekar snyrtileg og dönnuð, eins og þetta á myndinni hér fyrir neðan þar sem Maísól kóreógraferaði einhverskonar „tónlistarmyndband“ með random gestum úr sal sem héldu á laufblásurunum og spiluðu á luft-hljóðfæri…
…og svo önnur frekar sexý, eins og Dan the Man, kúrekinn á einhjólinu sem fékk marga/r til að emja og æpa af erótískri stimjúlasjón meðan Iðunn söng Dead or Alive með Bon Jovi.
Þegar kvöldið var hálfnað kom hlé og fólk dreif sig á barinn og út að veipa…
Svo hélt fjörið áfram..
Það má segja að menn hafi haft mis mikið þol fyrir atriðunum sem sum voru heldur ögrandi. Ég veit að einhverjir gestir vissu í raun ekkert hverju von var á og gleyptu bara loft og tóku andköf þegar holdmiklar meyjar tóku að hrista á sér afturenda og mjólkurkirtla eins og enginn væri morgundagurinn. Samkynhneigður vinur minn fékk næstum því panikk attakk yfir twerkinu og maðurinn sem sést hérna fremst t.v. við sviðið flúði í svartholið í símanum sínum og fékk því lítið fyrir peninginn þetta kvöld.
Í hans sporum hefði ég nú frekar horft… enda er ákveðin eldskírn í því að upplifa búrlesk sýningu ef maður hefur aldrei séð neitt þessu líkt.
OMG!
Ég ætla ekki að halda áfram og lýsa kvöldinu í smáatriðum því myndirnar sem ég tók gefa betri hugmynd um hverslags stuð þetta var.
Ef þú ert til í að skemmta þér með allt öðruvísi hætti en þú ert vön eða vanur, og treystir þér til að horfa á stráka og stelpur sem eru á öllum aldri og allskonar í laginu fækka fötum og hrista á sér skankana meðan einhver eldhress týpa úr salnum þrumar lag með Nicky Minaj eða Scorpions uppi á sviði – Þá skaltu skella þér! Ef ekki… þá er bara að vera heima og kaupa jólagjafir á Ali.
Ég segi samt að þú eigir að drífa þig því þetta er sjúklega fyndin og hressandi sýning sem er fullkomin fyrir djamm síðar um kvöldið. Þú færð miða hér. Live a little!
ATH: Kvöldið sem við mættum á var spes karaoke kvöld en það verður mögulega endurtekið eftir áramót. Kvöldin sem eru framundan verða hvert með sínu sniði og ekkert kvöld verður eins. Búrlesk kemur stöðugt á óvart.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.