Á eftirfarandi myndum má sjá framhaldsleiðbeiningar af hinni heimsfrægu Kama Sutra sem ætti að vera til í öllum svefnherbergjum heims. Á þessum teikningum kveður þó við annan tón en hér eru viðfangsefnin jú gift og búin að vera það lengi. Það eru Farley Katz og spaugarinn Simon Rich (The Daily Beast) sem eiga heiðurinn að þessum myndum en þessar stellingar þykja hvað algengastar eftir að gengið er í hjónabandið.
Þegar maðurinn er að setja í uppþvottavél og konan kemur til hans og leiðbeinir honum af því hann er ekki að gera það rétt þá heitir það – Uppþvottavélarstellingin.
Þegar þið eruð úti að borða með hjónum sem eru í steiktara sambandi en þið, og þið kreistið hendurnar á hvort öðru undir borðinu í einskonar þórðargleði þá kallast það – Sjúku ástarfuglarnir.
Þegar maðurinn kyssir háls konu sinnar mjúklega og hún strýkur yfir bringu hans meðan hún hjúfrar sig að honum en verða svo að hætta snögglega þegar smábarn þeirra kemur gargandi inn í herbergið af því barnið dreymdi eitthvað eða sá eitthvað kjaftæði þá heitir það – Ónýta löggjafarþingið.
Þegar konan sópar í kringum fætur mannsins til að gefa í skyn að hann ætti sjálfur að ganga betur um og taka til eftir sig þá heitir sú stelling – Þögla pillan.
Þegar maðurinn er farinn að heiman á golfmót með öðrum körlum og konan, ein heima, fer í langt bað og er með vínbelju sér við hlið þá kallast það – Sælustund.
Þegar börnin eru komin í pössun til ömmu og afa af því foreldrarnir ætluðu að fara út, en hætta svo við og háma í sig Imovane klukkan 19:30 af því þau hreinlega þrá að sofa vel og lengi þá heitir það – Letidýravalsinn.
Þegar konan kemur að manni sínum sem skellir snögglega niður fartölvunni sinni af því hann var að skoða Facebook síðu fyrrverandi kærustu sinnar þá heitir sú stelling – Hurð nærri hælum.
Þegar eiginmaðurinn rekur við án þess að biðjast afsökunar eða segja eitt einasta orð þá heitir það – Rásandi siðareglur.
Þegar konan krefst þess að maðurinn kaupi sér ný föt, af því hann er búinn að vera í sömu fötunum í mörg ár, og lítur fáránlega út og hann verður allur líkamlega stjarfur þegar hún ýtir honum inn í Herragarðinn þá heitir sú stelling – Þrjóska geitin.
Þegar maðurinn er lengi búinn að lofa að færa eitthvað húsgagn en frestar því alltaf og konan ræður myndarlegan ungling úr næsta húsi til að bera mubluna og unglingurinn fer úr að ofan og konan horfir á hann með augnatilliti sem maðurinn hefur ekki séð árum saman þá heitir það – Auðmýkti flóðhesturinn.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.