Ég legg ekki í vana minn að hrauna yfir fólk opinberlega en eftir að hafa orðið vitni að þeim smekklausa hryllingi sem átti sér stað í undankeppni júróvisjón þá get ég ekki orða bundist.
Ekki nóg með að manni yrði illt af þeirri arfaslöku eyrnamengun sem átti sér stað hjá keppendum, svo ekki sé minnst á kjánalæti þáttastjórnanda og keppenda sjálfra milli atriða, þá var klæðnaður allra í þessarri hryllilegu keppni sá púkalegasti sem ég hef séð lengi!
Eva María stal senunni, brjóstahaldaralaus í illa sniðnum galakjól sem gerði geirvörturnar óþægilega áberandi og Ragnhildur Steinunn líktist leiðsögumanni af Árbæjarsafni í misheppnuðum “peysufatakjól” sem flatti út á henni barminn og gerði ekkert gott fyrir þessa huggulegu ungu konu.
Keppendur voru (eins og virðist loða við þessa blessuðu keppni) mjög óspennandi klæddir og karlmennirnir allt of mikið málaðir en mest áberandi var greyið 16 ára stúlkan sem kom síðust í agnarlitlum silfurkjól sem myndi sóma sér vel á strippstað -en ekki í sjónvarpi, hvað þá á svona ungri stelpu!
En vinningin á elsku besta Jóhanna Guðrún í ljósblárri kerlingadragt sem manni dettur helst í hug að gömul frænka eða umboðskona hafi lánað henni… ég meina, hvaða 19 ára stúlka klæðist DRAGT nema hún sé að reyna að líta út fyrir að vera eldri, henni tókst þó það, því í þessarri dragt minnti hún á sextuga gellu á leiðinni á Players..
Í guðanna bænum gott fólk fáið ykkur stílista. Það er til svo mikið af hæfum stílistum og fatahönnuðum á þessu landi sem geta hjálpað ykkur og þó keppnin heiti Júróvisjón þá þarf hún ekki að vera svona gífurlega hallærisleg.
1990 er liðið!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.