Nú vill Páll Magnússon að við syngjum á íslensku í Júróvision að ári liðnu. Þarna fer maður sem talar af viti.
Það er fallegt að heyra góðan texta á íslensku, texta sem við virkilega skiljum öll. Það er alltaf heillandi þegar þjóðir syngja á sínu tungumáli í stað þess að grípa til enskunnar.
Frakkar til dæmis hafa alla tíð verði fremstir meðal jafningja að brúka móðurmálið sitt í keppninni. Franska er hvorki betri né fallegri en eitthvert annað mál – samt tala allir um hvað franskan er falleg og rómantísk.
Málið er líklega bara þjóðarstoltið sem skapar fegurðina, frönskumælandi menn trúa því að franskan sé hljómfegusta mál sem til er og það smitar út frá sér. Alveg eins og við Íslendingar trúum (og vitum mæta vel) að íslenskar konur eru fegurstu konur heims… skyldi það ekki einmitt skýra frábæran árangur okkar í fegurðarsamkeppnum?
Við vinnum fegurðarsamkeppnir á sjálfstraustinu.
En aftur að frönskum Júróvision slögurum. Árið 1965 sigraði til ung og óþekkt stúlka keppnina. Lagið er eftir franska tónlistarmanninn Serge Gainsbourg og söngkonan heitir France Gall. Þetta var fyrsta popplagið sem sigraði júróvision og að margra mati einnig eitthvert besta lag sem hefur heyrst í keppninni. Algert “je ne sais quoi” – það er eitthvað við lagið sem ég elska þótt ég geti ekki neglt nákvæmlega niður hvað það er. Kannski er það sú staðreynd að sungið er á móðurmáli landsins?
Hér syngur France Gall “Poupee de Cire, Poupee de Son” með fallegri röddu, skemmtilegt verður að sjá hvort við Íslendingar munum ekki ná jafnlangt í keppninni að ári liðnu ef við syngjum á íslensku – þessu gullfallega tungumáli okkar.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.