Oft langar okkur til að öskra en sjaldnast gerum við það enda slík hegðun síst til fyrirmyndar í siðmenntuðu samfélagi.
Á morgun og næstu daga, eða meðan Reykjavik Dance Festival stendur yfir, gefst þó tækifæri til að garga af lífs og sálar kröftum inni í sérlegum öskur jóga klefa. Öskrið þitt verður tekið upp og síðar væntanlega notað í einhverjum göfugum og listrænum tilgangi.
Á morgun, eða föstudaginn 16 ágúst, er forleikur að opnun hátíðarinnar en þá munu listrænir stjórnendur hennar, þau Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson, bjóða borgarstjóranum Jóni Gnarr að vígja klefann með einu góðu öskri. Kannski öskrar hann yfir framkvæmdum á Hofsvallagötu sem fæstir virðast sáttir við? Þegar hann er búinn geta svo aðrir komið og öskrað að vild. Mögulega íbúar við Hofsvallagötuna.
Hvað er þetta eiginlega?
Black Yoga Screaming Chamber er semsagt hljóðeinangraður klefi sem þér er boðið að stíga inn í og öskra. Í fréttatilkynningu segir að notandinn geti stigið inn í klefann ein/n eða með vini og verið þar inni og öskrað eins lengi og hann/hún vill.
“Hægt er að öskra af gleði, pirringi, til að gleyma, til að frelsa hugann, slappa af, fá orku, eða öskra algjörlega án ástæðu. Þessi reynsla gæti breytt lífi þínu. Öll öskrin verða tekin upp og innan fárra vikna fá þátttakendur sent til sín sitt eigið persónulega Black Yoga Mantra.”
Klefarnir verða í framhaldinu settir upp víða um bæinn eða á Dansverkstæðinu, Máli og Menningu, Laugavegi, Hafnarhúsinu og Hörpu og opnir hverjum þeim sem þarf á góðu öskri að halda.2
Black Yoga Screaming Chamber er partur af Reykjavík Dance Festival 2013 sem hefst 23. ágúst næstkomandi og stendur til 1. september.
Hátíðin í ár hefur persónulega nálgun. Í stað þess að hnoða saman hátíð með einu ákveðnu þema hafa Erna og Valdi sett saman dagskrá sem samanstendur af verkum íslenskra og alþjóðlegra listamanna sem þau telja mikilvæg og áhugaverð fyrir Ísland í dag, listamenn sem þau vilja skapa rými fyrir og deila með áhorfendum hér á landi. Þrátt fyrir að ekki sé að finna eitt ákveðið þema í gegnum hátíðina, má greina skýra fagurfræði sem einnig er að finna í verkum Ernu, Valda og Shalala.
Reykjavík Dance Festival 2013 er því hátíð sem helgar sig öfgum í mismunandi birtingarmyndum. Dagskráin er troðfull af dansi og kóreógrafíu í fjölbreyttum birtingarmyndum þar sem skýr, öfgafull, en mismunandi viðhorf gagnvart hinum dansandi líkama og hlutverki hans innan samtímadans og kóreógrafíu í dag eru sett hlið við hlið til að freista þess að skapa rými fyrir nýjar uppgötvanir, nálganir og upplifanir fyrir áhorfandann.
Hægt verður að kaupa miða og passa á hátíðina á staðnum en líka á Miði.is og ef þú vilt öskra þá er að mæta á dansverkstæðið, Skúlagötu 30 (Gengið inn Hverfisgötumegin, við hliðina á Kex).
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.