Í gær fór ég á veitingastaðinn Jómfrúna í Lækjargötunni. Við vinkonurnar ætluðum að fá okkur smá hádegissnarl, danskt smörrebrauð og læti. Við urðum sko ekki fyrir vonbrigðum. Staðurinn bókstaflega lyktaði af testósteróni!
Það voru karlmenn í hverju einasta sæti, á öllum aldri og bara nokkuð sætir. Ég leit til hægri og sá flottan mann, svo til vinstri og þar var annar enn flottari… ég vissi ekki hvar ég var lent:
-Donk, kona ertu svona kynsvelt að þér finnist allir menn aðlaðandi!? spurði ég sjálfa mig. Það eru líklega alltof margir mánuðir síðan ég lagðist á dívan með gæja. Að minnsta kosti voru í mínum augum bara sexý menn þarna inni og ég í nammilandi!
Ég pantaði mér markríl til að styðja nú rækilega við bakið á öllu sem íslenskt er.
…Þó fiskurinn hefði verið hreinasta lostæti; borinn fram kaldur á grófu brauði með salati og eggjarauðu í skurn sem ég smurði svo yfir fiskinn, átti ég bágt með að einbeita mér að matnum fyrir öllum flottu karlmönnunum. Ég held að langflestir hafi verið á aldrinum 35-40 -aldurinn sem ég fíla, myndarlegir menn í jakkafötum og greinilega á hádegisfundum þarna.
Venjulega hef ég alltaf borðað á þessum dæmigerðu grænmetisstöðum í hádeginu en því miður eru þeir einhverra hluta vegna alltaf fjölsetnir af kvenfólki og ákaflega kvenlegum karlmönnum. Jómfrúin og herramennirnir þar eru því sérstaklega góð tilbreyting.
Þarna var sko verið að horfa á hverja einustu konu sem gekk inn á staðinn. Sem betur fer voru þær örfáar fyrir utan okkur vinkonurnar sem áttum því alla athyglina.
Já. Þetta var sko eitthvað annað en hráfæðiæturnar, sem taka varla eftir því hvort kona er með brjóst eða rass. Og hana nú, héðan í frá verður borðað á Jómfrúnni í hverri viku!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún hefur lesið þúsund bækur um andlegan þroska og byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso. Bella er þannig að þú getur líka sagt henni allt. Hún dæmir engan og tekur á móti skilaboðum á: pjatt (hja) pjatt.is
3 comments
hvað meinarðu hráfæðiæturnar?
Hráfæði= Raw Food. Fólk sem borðar ekki mat sem hefur verið hitaður meira en 40 gráður. 🙂
Haha, gvuð ég misskildi þetta algjörlega! auðvitað auðvitað;)