Nú fer að líða að jólum og einungis þrír sunnudagar eru þangað til aðventan byrjar
Ég tók saman nokkrar fallegar myndir af aðventukrönsum. Þessa kransa er auðvelt að gera heima í stofu og hafa tilbúna áður en sá fyrsti rennur í garð. Oft er hægt að finna efni í aðventukransa heima hjá sér og bæta aðeins örlitlu skrauti við til að gera hina fullkomnu skreytingu.
Aðventukransar þurfa ekki að vera flóknir og úttroðnir af þurrkuðum blómum, trjágreinum og slettu af glimmeri. Hægt er að búa til sniðuga og einfalda kransa úr gömlum flöskum, glerkrukkum, nota gamla bolla og/eða kertastjaka. Kertastjakarnir þurfa ekki endilega að vera eins í laginu heldur er einfaldlega hægt að raða fjórum fallegum stjökum saman.
Vinsælt er að nota númer og setja á kertin, hægt er að fá svona númer til dæmis í blómabúðum og Púkó og Smart á Laugavegi. Könglar eru núna á hverju strái, bara skella sér í göngutúr og tína nokkra köngla í poka og þá ertu komin með smart aukaefni í aðventukrans. Trjágreinar og smá stönglar af trjám eru líka alltaf jafn fallegir og tilvalið að nota efni úr garðinum til að skreyta fyrir jólin.
Ef þú ætlar að nota gamlar glerflöskur eða flöskur sem þú kaupir í IKEA eða í Söstrene Grene er alltaf fallegt að nota gjafaborða til að skreyta flöskustútinn með. Það er einfalt en virkilega fallegt.
Kíkið á myndasafnið til að fá fleiri hugmyndir. Svo er tilvalið að fá börnin með í að búa til aðventukransinn í ár og leyfa þeim að undirbúa jólin með okkur.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.