Könglar eru eitt af mínum uppáhalds jólaefnum til að skreyta með
Það er hægt að nota þá í hinar ýmsu skreytingar og alltaf… já alltaf koma þeir vel út. Þeir eru fallegir í sínum náttúrulega brúna lit en einnig er hægt að mála þá í hinum ýmsu litum eða jafnvel setja smá glimmer á þá.
Þú getur nálgast köngla í næstu blómabúð eða jafnvel gert smá jólaferð með börnunum um næstu helgi og farið og týnt upp köngla við Hvaleyrarvatn eða við Elliðarvatn (nálægt húsi Morgunblaðsins) Börnin elska að taka þátt í jólunum og þetta er mjög einföld, ódýr og æðislega smart skrautaðferð fyrir bæði hátíðarborðið, jólapakkana, í gluggakistu eða á sófaborðið.
Ef þú ert með lifandi jólatré þá er mjög sniðugt að klippa nokkrar af neðstu greinunum og nýta sem skraut á hátíðarborðið, skella svo nokkrum könglum og kertum í kring og þú ert komin með hina fullkomnu skreytingu, jólalega og fallega.
Einn köngull á hverjum diski er mjög einföld skreyting. Í raun getur hún ekki verið einfaldari en falleg er hún. Sjálf nota ég köngla á jólapakkana, þeir eru svo jólalegir og æðislegir, eitthvað nýtt í stað þess að nota alltaf borðana og slaufurnar sem hafa verið til í hundrað ár og eru alltaf eins. Þú einfaldlega finnur fallegt band, svart, brúnt eða hvítt og hnýtir í könglana og bindur utan um pakkann. Klikkar ekki!
Kíktu á myndasafnið til að fá fleiri hugmyndir hvernig hægt er að nota köngla sem jólaskreytingu fyrir hátíðina og gangi þér vel!
Kv. Guðrún Halldórs!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.