Það er ótrúlega undarlegt hvað fólk er alltaf æst í að innræta fólki sínar skoðanir og jafnvel hefðir og eins mikið og ég elska jólin þá er þetta eitt af því sem mér finnst ekki gaman við jólin.
Ég man alveg sérstaklega eftir því hvað mér fannst þetta leiðilegt þegar ég var yngri en þá fannst mörgum vinkonum mínum til dæmis snarskrýtið að á mínu heimili væri lambalæri í matinn á aðfangadag og það að mamma drykki ekki rauðvín yfir steikinni með tveimur barnungum stelpum.
Það þótti ekki kúl að við borðuðum aldrei á slaginu sex, að við hlustuðum ekki á messuna og að mamma mín sagði mér og systur minni frá byrjun að jólasveinninn væri ekki til og það að við vöktum oftast fram yfir miðnætti yfir því að opna gjafir var bara ekki eins og tíðkaðist hjá flestum.
Þegar við í fjölskyldunni fórum svo að skipta á hverju ári um aðalrétt á jólunum þá var nú flestum í kringum mig öllum lokið og ákváðu þá að jólin mín væru bara “lost cause”.
Jólin eru persónuleg
Í dag finnst mér þessar áhyggjur fólks vera farnar að teygja anga sína óþarflega mikið út fyrir aðfangadagskvöldið sjálft og hættar að vera skoðanir og meira farnar að líkjast skipunum. Þegar talað er um að jólin séu jafnvel “eyðilögð” fyrir börnum af því bjóða á upp á val á móti kirkjuferðum í leikskóla þá er helst til langt gengið.
Trú, eins og aðrar skoðanir okkar, er persónuleg. Þau sem trúa eiga persónulegt samband við guð sinn og ég veit um fáa trúaða sem vilja tala um samband sitt við guð á almennum vettvangi fyrir utan trúarleiðtoga. Trú á því ekkert erindi inn á opinberan vettvang þar sem hennar er ekki óskað, líkt eins og stjórnmálaskoðanir eiga ekkert erindi inn á vettvang þar sem þeirra er ekki óskað.
Þó að ég vilji kannski hlusta á pólitíska ræðu á 17. júní þá leyfi ég þeim sem eru með mér sem vilja frekar hlusta á Í Svörtum Fötum að gera það. Ég neyði þá ekki til að hlusta með mér af því það er mín hefð að hlusta á pólitíska ræðu á 17. júní og ef þeir geri það ekki með mér þá eyðileggi þeir 17. júní fyrir mér.
Auðvitað hafa allir rétt á sínum skoðunum en jólin mín hafa samt sem áður ekki áhrif á neinn annan en mig og mína fjölskyldu og auðvitað höfum við rétt á því að ákveða hverjar okkar eigin hefðir eru.
Jólin ekki ónýt þó hefðum sé breytt
En við höfum engan rétt á því, frekar en nokkur annar, að ákveða hverjar hefðir annarra fjölskyldna eiga að vera og þó að ég sé persónulega búin að ákveða að ef ég eignast börn þá muni þau alast upp við trúleysi sama hvort það á við um jólasveina eða aðrar yfirnáttúrulegar verur, þá þýðir það ekki að ég verði að láta öll hin börnin í heiminum gera það sama því það er jú hefð að trúa ekki á jólasveina eða Jesú…
Ég er alveg fullkomlega sjálfsörugg með mín jól svo ég þarf ekki að sannfæra neinn um að jólin mín séu sko miklu betri en jólin hans eða hennar en á sama tíma eyðileggjast jólin mín ekki ef ég þarf að víkja út frá minni hefð til þess að láta öðrum líða betur.
Oftast er líka ekkert mál að komast að málamiðlun ef allir koma rólegir að samningaborðinu 😉
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.