Kæri jólasveinn. Þú verður að afsaka að ég sé að skrifa þér aftur en þú ert ekki búinn að svara bréfunum sem ég hef sent þér undanfarna mánuði.
Kannski hafa síðustu fjögur bréf ratað eitthvað annað eða pósturinn jafnvel týnt þeim. Það er alltaf svo mikið að gera hjá þeim. Ég er alls ekki að kvarta, mig langaði bara aðeins að heyra frá þér. Ég er löngu búin að adda þér á Snapchat en það er nú önnur saga. Ég er svo spennt að ég ræð bara ekki við mig. Dagsdaglega set ég upp sposkan svip á heimilinu og þykist gleyma að kaupa mandarínur. Ég held að engan gruni neitt. Ekki ennþá. Nema kannski…sjáðu til ég lenti í örlitlu atviki í gærdag.
„Ertu að pakka inn gjöf? Hver á afmæli?”, spurði kærastinn þegar hann kom heim og sá mig innan um jólapappír og gjafaborða í öllum litum.
Ég var að sjálfsögðu að pakka inn jólagjöfum fyrir vini og vandamenn og þóttist ekki heyra í honum. Þegar hann uppgötvaði hvað ég var að gera skellihló hann í hálftíma á eftir. Ég kom þá að sjálfsögðu með afsökun sem er alltaf skotheld…krakkarnir vildu pakka inn gjöfum. Hann hlýtur að halda ég sé pínulítið veruleikafirrt að vera að þessu í nóvember. En það er lok nóvember, höfum það á hreinu sem þýðir að það er korter í jól. Það eru eflaust einhverjir á sama stað og ég. Farnir að telja niður dagana til jóla og bíða í ofvæni eftir því að skreyta heimilið og setja upp seríur í alla glugga. Sumir eru jafnvel búnir að öllu jólastússi fyrir löngu. Þessi tími sem hátíðirnar eru getur verið fullur af kærleik og gleði. Sérstaklega hjá ungum sálum sem vona að óskirnar verði uppfylltar.
Þessi jólatími er þó ekki eingöngu fullur af gleðistundum fyrir suma og óneitanlega finna margir fyrir auknu álagi og stressi í kringum jól. Að finna til jólaskrautið verður allt í einu kvöð og kvíðinn fyrir jólagjafa innkaupum fer að gera vart við sig óvenju snemma.
Jólin verða komin inn á flest heimili innan skamms en framundan er prófatörn hjá mér. Á meðan verða jólin sett á pásu og ég ætla ekki að fríka út þó svo ég nái ekki að baka fimm sortir. Svo ég fari ekki í jólaköttinn er ég að sjálfsögðu búin að gera jólagjafa óskalista sem ég gerði í febrúar. Þú hefur eflaust ekki fengið það bréf heldur. Draumurinn væri að eignast retro plötuspilara í tösku eða á standi og spila nostalgíu slagara um yfir hátíðina. Boney M á fóninum væri ekki amagalegt. Endilega sendu mér snapchat ef þú færð þetta bréf. Ok bæ og takk fyrir!
Hvar fást vörurnar óskalistanum?
- Plötuspilari á standi – Urban Outfitters (urbanoutfitters.com). Einnig fæst flottur plöturspilari í tösku hjá My Concept Store (myconceptstore.is).
- Úr Ma-Ga Ísland – Fæst hjá Reykjavík Ink eða á magaisland.is
- Rúmföt – Verslunin Mena.is
- Jakki – ZARA
- Spegill – ILVA
- Skór – Asos.com
- Bolur – veryexclusive.co.uk
- Kögur jakki – Það fást ýmsar gerðir af svona jakka á Nelly.com og Asos. com.
- Mósaík diskur – Verslunin Hrím(hrim.is).
- Karfa – Verslunin Hrím (hrim.is)
- Pottavasar í leðri – Lovethesign.com
- Instant myndavél – Urban Outfitters (urbanoutfitters.com).
- Humans of NY bók – Nordstrom.com
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!