Ég var beðin að skrifa um jólagjafir, eða koma með hugmyndir að jólagjöfum öllu heldur. Þegar hátíðirnar ganga í garð fer ég yfir um af stressi þar sem að ég veit ekkert hvað ég á að gefa fólki, hvað vantar fólk, hvað á ég að gefa?
Fólk er líka svo krúttlega kurteist þegar maður spyr. Sama svarið kemur oftar en ekki frá flestum:
“Æj veistu, ég verð bara ótrúlega ánægð/ur sama hvað þú gefur mér, mig vantar ekki neitt…” Við vitum að við gerum þetta. Nema þegar mamma spyr, þá er maður yfirleitt búin að vera að vinna að lista frá því á síðustu jólum.
Mér skilst að margir aðrir eigi við sama vandamálið að stríða og tilgangurinn með þessum skrifum er að auðvelda ykkur þjáningarsystrum mínum (og bræðrum) lífið svo að hver mínúta fari ekki í jólastress. Ég tek hérna fyrir týpurnar sem manni finnst erfiðast að finna gjafir fyrir.
Munið líka að fólkið sem vinnur í búðunum er þar til þess að afgreiða og vill oftast glatt hjálpa til.
Mamman
Bæði auðveldasta og erfiðasta jólagjöfin. Maður vill gera mömmu sína ánægða en veit á sama tíma að hún hoppar af kæti þó hún fái leikskólaföndur. Eftir vinnuna við að ala okkur upp er ég á því að gefa mömmunni eitthvað sem hún getur notað til þess að dekra við sig eða til að gera sig fína: Gæða body lotion, maska, krem, gjafabréf í dekur, fallega skartgripi, gjafabréf í fatabúð eða eitthvað álíka. Ef maður ætlar að gefa henni snyrtivörur þá er um að gera að laumast í snyrtibudduna hennar og gá hvað hún notar mest og hvað hún þarf. Leyfið pabbanum eða makanum hennar að sjá um nærfatakaupin.
Manneskjan sem á allt
Ég á eina vinkonu sem á allt (sko bókstaflega allt) og vantar ekkert en þó getur maður fundið út hvort það er eitthvað sem hana vantar. Ef hún er snyrtivörufíkill að þá segir það sig sjálft að gefa henni kannski föt. Ef hún er fatafrík að þá er um að gera að gefa henni fallegan varalit. Eða gjafakörfu með ilmkertum, olíum og fleiru.
Kærastan
Eitthvað frá hjartanu, hvort sem það er dekur, skartgripir eða kjóllin/skórnir sem hana hefur langað í lengi. Kannski fallega tösku sem hún tímir ekki að kaupa sér sjálf.
Kærastinn
Örugglega mest stressandi jólagjöfin af þeim öllum. Strákar nenna oft ekki að kaupa sér föt sjálfir þannig að fallegur jakki, skyrta eða skór er yfirleitt skothelt. Þið vitið samt best hvaða týpur kærastarnir ykkar eru. Svo er alltaf smart að gefa honum flott úr eða jafnvel hálsmen/hring/armband ef hann fílar skartgripi. Góður rakspíri klikkar heldur aldrei og það er líka hægt að finna flott bindi eða belti út um allt. Ef hann hefur gefið eitthvað í skyn eins og aukahluti varðandi áhugamálið sitt, kíkið þá í búðir og tékkið á því.
Pabbinn
Þeir eiga sér flestir rótgróin áhugamál og ef þú ert hugmyndasnauð/ur er um að gera að vinna út frá þeim. Ef hann elskar stangveiði, gefðu honum flugur/flugubók/veiðibók. Ef hann er mikið fyrir byssur, þá er alltaf hægt að finna góða aukahluti í byssuveiðina og það sama gildir um önnur áhugamál. Góður rakspíri er málið ef hann er mikið fyrir að lykta vel. Ef hann gengur mikið í skyrtum, þá er hægt að gefa honum flotta skyrtu. Bara eitthvað sem hann getur notað og hefur gaman af.
Unga skvísan
Ef hún er byrjuð að mála sig þá elska stelpur að fá flottar snyrtivörur en passið bara að það sé eitthvað sem hentar þeirra aldri. Gloss, maskari, létt púður, ljós augnskuggi eða kinnalitur er alveg málið. Svo er líka gaman að gefa burstasett. Ef hún er ekki mikið fyrir að mála sig þá eru föt og skór góðar gjafir sem hún getur notað. Body lotion, sturtugel og ilmvötn eru líka æði.
Vonandi auðveldaði þetta einhverjum lífið og jólagjafavalið. Munum svo að anda rólega og njóta hátíðanna, þær eru bara einu sinni á ári.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com