Ánægjulegast af öllu jólastússinu þykir mér að pakka inn gjöfunum sem verða minna skreyttar með hverju árinu. Ætli móðir mín hafi ekki verið mikill áhrifavaldur en hennar gjafir eru ávallt svo stílhreinar og gjarnan er pappírinn endurnýtanlegur. Þrátt fyrir að ég sé að stíga skrefið nær mínimalískum stíl þá hef ég ekki tileinkað mér það að fullu ennþá.
Hér eru þó nokkrar skemmtilegar hugmyndir til að pakka inn gjöfum ef þú vilt hafa pakkana stílhreina í mínimalískum stíl. Hvítur jólapappír er einstaklinga fallegur og passar við alla borða. Gott er að næla sér í greni, snæri í jarðarlitum eða svörtu og hvítu og jafnvel endurnýta pappír sem er til á heimilinu nú þegar. Dagblöð eða blaðsíður úr gömlum bókum.
Einnig er hægt að prenta út ljósmyndir á pappír heima við og pakka inn litlum gjöfum. Heimatilbúnar og persónulegar jólagjafir hitta oftast í mark svo það er um að gera að nota ímyndunaraflið.
Gangi ykkur vel og gleðileg jól!
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!