Lesendabréf:
Núna er tíminn þegar auglýsingunum rignir yfir um allskyns glyngur, tæki, tól og annað sem er ómissandi í jólapakkann.
Þar sem ég er einföld lítil sveitastelpa inn við beinið fórna ég höndum yfir þeim fjárhæðum sem eyða á í góssið, ég á bara ekki aukatekið orð. Og þegar ég lít til baka yfir þær jólagjafir sem glatt hafa mig hvað mest fer ekki á milli mála að þar var mikið hugvit og kærleikur að baki, en ekki endilega margir aurar.
Ein jólin fékk ég óvænta gjöf frá litlum frænda. Það var smásagnasafn, litlar sögur sem hann hafði samið og myndskreytt svona ljómandi vel í litla stílabók.
Hann veit að ég er mikill bókaormur og fannst því tilvalið að bæta aðeins í bókasafnið mitt.
“Einusinni var önd sem hét Ðoblit. Ðoblit aftur á bak er tilboð og þessvegna dýrkaði Ðoblit tilboð. Einusinni var Ðoblit á tilboðssölu og sá þvottavél á 1.499. Og hann var svo heimskur að hann dó.”
Þórbergur Þórðarson hefur lengi verið uppáhalds rithöfundurinn minn, en svei mér þá ef þessi slær honum ekki við.
Ég hef fengið heimatilbúið konfekt, bókamerki sem stóð á ” þú skiptir mig máli”, inneignarnótu á gönguferð og kaffisopa, forljótt heimatilbúið föndur sem ég nota sem stofustáss og dáist reglulega að, minnisbók með litlum skilaboðum um að í hana ætti ég að skrifa það sem ég er þakklát fyrir og körfu með heimatilbúinni sultu, kexi, mandarínum og jólakúlum.
Þessar gjafir hafa ekki sett neinn á hausinn og sennilega ekki teknar á raðgreiðslum. En mikið óskaplega glöddu þær mig mikið.
Jólagjafainnkaupin þurfa ekkert að vera flókin þó að aurarnir séu ekki margir. Dass af kærleik og smá dreitill af væntumþykju skipta töluvert mikið meira máli og skilja meira eftir sig.
Kveðja, Guðrún Hulda Jónsdóttir.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.