Það er óneitanlega gaman að ganga niður og upp Laugaveginn þegar jólin nálgast, líta inn í búðir, sjá allt fólkið og upplifa skemmtilega jóla-innkaupastemningu.
Ég upplifði þetta í gær þar sem ég rölti með sjálfri mér og notalegum kuldabola á þessari fallegu verslunargötu.
Það sem mér fannst skemmtilegast að sjá voru allar þessar litlu fatabúðir sem hafa sprottið upp í bænum. Ég nefni fyrsta mjög smart búð sem ber hið kómíska nafn Dúkkuhúsið og leynist við Vatnsstíg. Verslunin er öll í bleikum, dúkkulegum stíl og fötin eru bara nokkuð smart. Þarna var mjög gaman að skoða og ég sá fullt af skvísulegum áramótakjólum sem voru á góðu verði líka, um tuttugu þúsund. Ég vona að þessi verslun komi til með að lifa góðu lífi því hún er sæt.
Ég tók svo strikið út og gekk upp á Laugaveginn.. þar blasti við ótrúleg sjón! Í undirfataverslun stóð lifandi manneskja og sýndi undirföt, eins og ekta gína. Ég hélt fyrst að ég hefði fengið mér of mikið að drekka því gínan hreyfði sig… en mundi þá að ég var bláedrú og þetta bara gott grín hjá búðinni.
Ég datt svo inn í æðislega búð sem heitir Einvera. Ég sá þar fullt af allskonar fötum og dóti sem mig langaði bara mikið í. Hafði aldrei komið inn í þessa verslun en var mjög hrifin af vöruúrvalinu, innviðum verslunarinnar og viðmótinu hjá afgreiðslufólkinu. Akkúrat svona konfektbúðir eru mér að skapi, persónulegar og heillandi.
Auðvitað kíkti ég líka í Kisuna, því ekki er hægt að fara í bæinn nema stoppa í þessari frönsk-íslensku boutique. Þar eru dansandi ísbirnir í búðarglugganum, þeir lokka okkur inn og síðan þegar inn er komið fyllir ilmvatnið frá Annick Goutal vitin.
Ég nota þessi ilmvötn alltaf spari. Þegar ég var sæl og snauð stúdína í París þefaði ég alltaf af þessum ilmum hjá Annick Goutal. Átti ekki aur en sór þess eið að einhverntíma myndi ég eignast þetta. Ég hef reyndar heyrt sagt að Kalli Bretaprins noti helst aðeins ilminn Eau d´Hadrien frá þessu merki, hann er nú ekki beinlínis mitt idol, no, no!
Talandi um ilmi.. ég er núna að nota ilminn frá Dolce&Gabbana, Rose the One sem ég fékk hjá Sævari Karli. Svo ég leit þangað inn og akkúrat þegar ég opnaði hurðina hófu 23 karlmenn upp raust sína!
Mér til mikillar ánægju voru þarna komnir Fjallabræður að syngja fyrir viðskiptavini, þeir voru líka að selja diskinn sinn og gáfu ágóðan til Barnaheilla. Ég var alveg að fíla Fjallabræður. Það er líka mjög jólalegt að koma inn í Sævar Karl, round-point tísku og menningar í Reykjavík. Þar hittir maður alltaf einhvern sem maður kannast við og upplifir flotta stemmningu. Ekki skemmir hvað fötin eru ómótstæðileg og í kjallaranum eru líka rosalega fallegir gullfiskar sem bíða gapandi eftir þér.
Ég endaði svo þetta rölt á Næstu grösum í grænmeti og rauðvíni sem mér finnst ágæt blanda og góður undirbúningur fyrir átök jólahlaðborðanna miklu í næstu viku.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.